Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann frækinn sigur á hollenska landsliðinu í fótbolta á Laugardalsvellinum í kvöld, með tveimur mörkum gegn engu. Hollendingarnir, sem unnu til bronsverðlauna á síðasta HM í fótbolta sem fram fór í Brasilíu sælla minninga, sáu aldrei til sólar.
Frá fyrstu mínútu mátti sjá hvar sjálfstraustið skein úr andlitum íslensku landsliðsmannanna, enda komnir með blóð á tennurnar eftir sigra í fyrstu tveimur leikjum liðsins í A-riðli forkeppni Evrópumeistaramótsins í fótbolta sem fram fer í Frakklandi árið 2016.
Smitandi sjálfstraust
Kapp Íslendinganna kom Hollendingunum í opna skjöldu á kyrru og köldu kvöldi í Laugardalnum, en þeir eyddu drjúgum hluta í upphafi leiks í að laga vettlingana sína og kvarta undan því að leikboltinn væri linur. En þó veðrið hafi verið með kyrrum kjörum, er ekki það sama að segja um kappklædda stuðningsmenn Íslands sem studdu duglega við bakið á sínum mönnum úr stúkunni, undir dyggri handleiðslu Tólfunnar - stuðningssveit íslenska landsliðsins.
Eins og í undanförnum leikjum einkenndist leikur Íslands af yfirvegun og sjálfstrausti. Leikmenn liðsins eru í alvöru farnir að trúa því að þeir geti unnið nánast hvaða lið sem er, og íslenska þjóðin virðist sömuleiðis vera komin á þá skoðun. Ekki að ósekju myndi einhver segja.
Gylfi neitar að hætta að skora með landsliðinu
Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á tíundu mínútu, þegar Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Birkir Bjarnason var felldur í vítateig þeirra appelsínugulu. Landsliðið fagnaði markinu ákaft eins og stuðningsmennirnir, en um leið og flautað var aftur til leiks varð einbeitingin áberandi á ný, eins og kveikt hefði verið á rofa.
Hollendingar virtust ráðalausir, enda hefur andleg brotlending þeirra vafalítið verið hörð eftir að hafa fengið mark á sig svo snemma leiks. Sóknarleikur þeirra var bitlaus, miðjumenn þeirra vart sýnilegir fyrir utan harðjaxlinn Nigel de Jong, prímusmótorinn á miðju vallarins. Wesley Sneijder hefði eiginlega betur sómað sér upp í stúku, þar sem hann hefði verið rukkaður fyrir aðgangsmiðann, því hann gerði lítið annað en að glápa á það sem fyrir augu bar í fyrri hálfleiknum.
Stórstjörnur sem ekki skinu
Hinn knái Arjen Robben fékk baulkórinn á sig í hvert skipti sem hann snerti boltann, og komst lítið áleiðis gegn Ara Frey Skúlasyni og Robin van Persie, stórstjarna Manchester United, fékk úr litlu að moða frammi. Hann fékk reyndar eitt dauðafæri í fyrri hálfleik þegar hann komst einn inn fyrir vörn Íslands, en var svo étinn af Hannesi Þór Halldórssyni landsliðsmarkverði, sem var frábær og öruggur í öllum sínum aðgerðum í leiknum.
Framherjarnir Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson voru vesen holdi klæddir fyrir varnarmenn hollenska liðsins, Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði sá um skítverkin og át hverja sendingu á fætur annarri á miðjunni eins og Pac-man.
Það ætlaði allt um koll að keyra í hjarta höfuðborgarinnar þegar Ísland komst í 2-0 á 42 mínútu. Þar var að verki Gylfi Þór Sigurðsson, sem skoraði með föstu skoti upp í þaknetið, en boltinn barst til hans eftir krafs fyrir framan mark Hollendinga eftir góða hornspyrnu Emils Hallfreðssonar.
Íslenska liðið varðist sem einn maður
Hollendingar komu beittari til leiks í síðari hálfleik. Trukkurinn Klaas Jan Huntelaar kom þá inn á fyrir áðurnefndan Wesley Sneijder, sem komst þá í langþráða heita sturtu. Bakverðinum Ara Frey Skúlasyni var sömuleiðis skipt út af sökum meiðsla, og inn á kom Birkir Már Sævarsson.
Hollendingar beittu helst háum og löngum sendingum í síðari hálfleik, enda hafa þeir vafalaust verið komnir á þá skoðun að það viðraði vel til loftárása. Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason voru sem turnar í hjarta varnarinnar og kipptu sér lítið upp við loftvarnaflauturnar. Ragnar og Kári hafa verið frábærir í undanförnum leikjum íslenska landsliðsins og í kvöld varð engin breyting á. Bakvörðurinn Theódór Elmar Bjarnason var líka frábær í leiknum, en hann hefur rækilega eignað sér stöðuna í íslenska landsliðinu með frammistöðu sinni í síðustu leikjum landsliðsins.
Íslenska liðið lá til baka og varðist sem einn maður, en hvorki landsliðsmennirnir né kaldir stuðningsmennirnir trúðu því í eina sekúndu að liðið myndi tapa þessum leik. Þannig er stemmningin orðin í kringum íslenska landsliðið í dag. Liðið sem sýndi takta í síðustu undankeppni stórmóts í knattspyrnu, er núna með dansgólfið í heljargreipum og dansar taktfastan breikdans. Sóknir hollenska liðsins voru máttlausar og íslenska liðið gerði sig margsinnis líklegt til að bæta við marki í vel útfærðum skyndisóknum. Jón Daði Böðvarsson komst næst því að skora þegar hann tók á rás frá miðju vallarins, tróð sér á milli varnarmanna með boltann inn í vítateig og sendi boltann hárfínt framhjá fjærstönginni. Áhorfendur risu svo úr sætum og hylltu unga sóknarmanninn þegar honum var skipt útaf fyrir Rúrik Gíslason, þegar nokkrar mínútur lifðu leiks.
Stúkan söng og syngur enn
Emil Hallfreðsson átti skínandi leik á vinsti vængnum, sérstaklega í fyrri hálfleik, og Birkir Bjarnason var óþreytandi á hægri kantinum. Að öðrum ólöstuðum var töframaðurinn á miðjunni, Gylfi Þór Sigurðsson, klárlega maður leiksins. Honum leiðist án boltans, og þegar hann fær hann gerist nánast undantekningalaust eitthvað skemmtilegt.
Þegar dómarinn flautaði til leiksloka brutust út mikil fagnaðarlæti á Laugardalsvelli.
https://vimeo.com/108840659
Stuðningsmenn hollenska landsliðsins, sem keyptu marga dýra bjóra bjartsýnir fyrir leik, laumuðu sér út af vellinum á meðan stúkan söng og hyllti íslenska landsliðið. Ísland trónir sem fyrr á toppi A-riðils forkeppni Evrópumeistaramótsins í fótbolta, með níu stig eða fullt hús stiga og markatöluna 8-0. Stúkan á Laugardalsvelli söng í leikslok og syngur enn. Fagnaðarlátunum ætlar aldrei að linna.