„Það að synja refsifanga um bílstjóra og bíl til að aka í sex tíma á hverjum degi í fimm vikur er ekki mannréttindabrot, heldur fullkomlega eðileg vinnubrögð. Það að einhverjum lögmanni hins vegar detti í hug að tilteknir fangar geti borgað fyrir umframréttindi er í besta falli dómgreindarskortur og til marks um þekkingarleysi á því hvernig okkar fullnustukerfi, og reyndar hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum virkar.“
Þetta segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, í samtali við fréttastofu RÚV. Þar bregst Páll harðlega við ásökunum Gests Jónssonar, verjanda Sigurðar Einarssonar sakbornings í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, um að fangelsismálayfirvöld hafi brotið á mannréttindum skjólstæðings hans. Á Sigurði væri brotið með því að gera honum ekki kleift að fylgjast með réttarhöldunum yfir sér, nema með því að vera vistaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.
Hreiðar Már vildi fá að borga fyrir bílferðirnar sínar
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sem nú afplánar fangelsisdóm á Kvíabryggju ásamt Sigurði Einarssyni fyrir aðild að Al-Thani málinu svokallaða, kvartaði sömuleiðis á dögunum undan því að honum hafi verið neitað um flutning milli fangelsisins og Reykjavíkur á meðan á réttarhöldunum stæði. Jafnvel þó hann hafi boðist til að standa straum af kostnaði við bílferðirnar.
Í samtali við RÚV segir forstjóri Fangelsismálastofnunar að peningar gangi ekki sem gjaldmiðill hjá stofnuninni, heldur hegðun og framkoma. „Að þeim auðævum hafa allir fangar jafnt aðgengi, háir sem lágir, ríkir sem fátækir.“
Hið sama gildir um alla
Verjandi Sigurðar Einarssonar gagnrýndi sömuleiðis að skjólstæðingur sinn hafi verið nauðbeygður til að gista í Hegningarhúsinu, ella missa af réttarhöldunum yfir sér. Skjólstæðingur sinn væri ekki ungur maður, heilsa hans kannski ekki nógu góð og útilokað að hann næði að hvílast í Hegningarhúsinu.
Í áðurnefndri frétt RÚV er haft eftir forstjóra Fangelsismálastofnunar vegna þessa: „Við höfum verið þar með fanga vistaða sem eru fæddir 1918, 1929. Þetta hefur gengið fyrir alla. [...] Frá árinu 1873 hafa allir fangar sem hafa verið viðstaddir aðalmeðferð í Reykjavík verið vistaðir í fangelsunum í Reykjavík. Það hafa allir fangar getað hingað til og gera þar til annað fangelsi tekur við. Svo einfalt er það.“