Fanney Rós Þorsteinsdóttir hefur verið skipuð ríkislögmaður frá og með 28. febrúar næstkomandi. Fanney er fyrsta konan sem er skipuð í embættið, en hún var einnig eini umsækjandinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Samkvæmt tilkynningunni sóttu upphaflega tveir um embættið, en annar þeirra dró svo umsókn sína til baka eftir að forsætisráðherra fól ráðgefandi hæfnisnefnd að leggja mat á hæfni þeirra. Umsóknin var dregin til baka áður en nefndin tók til starfa, en hún mat það svo að Fanney Rós uppfyllti öll hæfis- og hæfnisskilyrði.
Fanney Rós lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands í júní 2005 og framhaldsnámi (LLM) við Columbia-háskóla 2012. Hún hefur starfað hjá embætti ríkislögmanns frá árinu 2012 en áður var hún aðstoðarmaður hæstaréttardómara, fulltrúi hjá Mörkinni lögmannsstofu og ritari kærunefndar útboðsmála.
Þá var hún um skeið stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Fanney Rós hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi 2006 og fyrir Hæstarétti 2014.