Fjölmargir íbúar í Neðra-Breiðholti mótmæla því að fyrirhuguð íbúabyggð í Mjódd og Norður-Mjódd verði að jafnaði 5-8 hæðir og segja að um „stökkbreytingu í byggðamynstri“ og „forsendubrest í skipulagi“ væri að ræða verði aðalskipulag Reykjavíkur samþykkt í þeirri mynd sem tillögur gera ráð fyrir. Fara íbúarnir fram á að viðmiðunarhæð bygginga á svæðinu verði ekki meiri en fimm hæðir.
Þetta má lesa í allmörgum athugasemdum sem bárust við uppfærslu á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar fram til ársins 2040, sem nú er til meðferðar í stjórnkerfi borgarinnar. Athugasemdafrestur við skipulagsbreytingarnar var til 31. ágúst s.l. og fékk Kjarninn allar umsagnir og athugasemdir afhentar fyrir skemmstu.
Umsagnir þeirra sem hafa áhyggjur af hæð byggðarinnar sem til stendur að rísi í Mjóddinni, meðal annars á hinum svokallaða Garðheimareit, eru margar samhljóða. Í þeim segir að áætluð mikil fjölgun íbúða frá núgildandi heimildum aðalskipulags sé stökkbreyting á byggðamynstri og forsendubrestur á því skipulagi sem eignirnar sem standa ofar í hverfinu séu hannaðar út frá.
Vert er að taka fram að í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur er Mjóddin skilgreind sem svæði þar sem hús geti verið 9 hæðir eða hærri, sökum þess að dæmi eru um hús af þeirri hæð þar. En nú stendur til að byggja íbúðarhúsnæði á reitum í Mjóddinni og þrátt fyrir að með uppfærðu aðalskipulagi sé verið að lækka viðmiðið á hæðum húsa á þessum slóðum niður í 5-8 hæðir virðast íbúar óttast að sá hæðarrammi verði nýttur til fulls er reitirnir verða nánar útfærðir í deiliskipulagi.
Hugmyndir hafa verið viðraðar um yfir 700 íbúðir á hinum svokallaða Garðheimareit, sem er í eigu Haga. Borgin sjálf gerir ráð fyrir 800 nýjum íbúðum í Mjódd í nýjustu húsnæðisáætlun sinni.
„Hæstu hús í Neðra-Breiðholti eru þrjár hæðir (fyrir utan eina undantekningu, Þangbakka). Er það okkar mat að 5-8 hæða hús skerði útsýni og hafi mikil áhrif á skuggavarp á öll húsin í vesturhluta hverfisins. Hverfið var byggt þannig að lágreistu húsin eru neðst í jaðri Neðra-Breiðholts og þriggja hæða blokkir fyrir ofan þannig að allir hafa gott útsýni. Með því að byggja 5-8 hæða hús í Mjódd og Norður-Mjódd er verið að fara gegn því góða skipulagi sem hverfið er þekkt fyrir. Húsin eru hönnuð út frá núgildandi skipulagi þar sem útsýnis og kvöldsólar nýtur. Tillaga að byggingu allt að 8 hæða samfelldrar byggðar vestan við byggðina, með möguleika á 10 hæðum að hluta, er því forsendubrestur frá núverandi skipulagi,“ segir í fleiri en einni umsögn frá íbúum í Neðra-Breiðholti.
Skert gæði og virði húsnæðis
Í einni umsögn frá íbúum, sem er að mestu samhljóða því sem segir hér að ofan, er sérstaklega fjallað um hvernig bygging 8 hæða samfelldrar byggðar vestan við byggðina myndi að mati íbúanna rýra verulega gæði heimilis þeirra við Ósabakka. Íbúarnir segja að þeir myndu í kjölfar slíkrar uppbyggingar ekki njóta sólarljóss nema mjög takmarkaðan hluta dagsins og að það myndi draga úr gæðum og notagildi húsnæðisins.
„Sömuleiðis skerðir það útsýnið sem við njótum frá heimili okkar. Það yrði okkur einnig umtalsvert fjártjón þar sem slíkar framkvæmdir koma til með að hafa áhrif til lækkunar á fasteignaverði hjá okkur sökum mikillar skerðingar á gæðum sem húsnæðið skartar í dag sem er fjöldi sólarstunda í stofu og bakgarði hússins og gott útsýni úr stofunni,“ segir umsögn þessara íbúa.
Gengið í hús og nær allir skrifuðu undir mótmæli
Samkvæmt einni umsögn frá íbúum í hverfinu var ráðist í undirskriftasöfnun á meðal íbúa í raðhúsunum fyrir ofan Mjóddina og í vestanverðum Stekkjum, gegn því að byggð yrði hærri en fimm hæðir í Mjóddinni.
Þar segir að 96 prósent þeirra sem voru heima er undirskriftasöfnunin fór fram hafi verið tilbúin að skrifa undir mótmælin, eða íbúar í 133 húsum af 147 sem voru heimsótt.
Í sömu umsögn segir einnig að með jafn mikilli fjölgun íbúða í hverfinu og gert sé ráð fyrir muni álag á innviði aukast og er þar rætt um grunnskóla og heilsugæslu, „svo ekki sé minnst á gatnakerfið“.