„Fasteignaverð hækkaði um tugi prósenta umfram verðbólgu frá 2002 til 2005 og hjá stórum hópi var verðbólguskotið 2008 og 2009 bara til að jafna það út. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem keypti sína fyrstu fasteign í júlí 2002 hefur horft á fasteign sína hækka um tæplega 65% umfram lán en fær samt skuldaleiðréttingu frá ríkissjóði“. Svona hefst grein eftir Boga Ragnarsson um skuldaniðurfellingar ríkisstjórnarinnar sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Bogi birtir töflu með grein sinni sem sýnir annars vegar hækkun fasteignavísitölu og hins vegar hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar á tímabilinu júlí 2002 til september 2014. Tölurnar eru fengnar hjá Hagstofu Íslands og Þjóðskrá Íslands. Samkvæmt töflu Boga hafa allir sem keyptu sér fasteign frá miðju ári 2002 og út árið 2004, og frá apríl 2009 og fram til dagsins í dag, hagnast á kaupunum. Þ.e. fasteignaverð hefur að meðaltali hækkað umfram verðtryggingu og virði fasteigna því hækkað umfram hækkun lána.
Taflan sem birtist með grein Boga Ragnarssonar í Morgunblaðinu.
Þeir sem keyptu fyrstu fasteign sína frá janúar 2005 til mars 2009, á 50 mánaða tímabili, standa frammi fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar, og þar með verðtryggð húsnæðislán, hefur hækkað umfram visitölu fasteignaverðs, og þar með virði fasteigna þeirra. Bogi segir í grein sinni að „ þá hefur fólk sem t.d. er með námslán, á leigumarkaði, með búseturétt eða aðrir sambærilegir hópar, sem margir eru í neðri lögum samfélagsins, ekki fengið neinar leiðréttingar og aldrei haft neinar eignir til að hækka á móti. Það er því augljóst af einfaldri samantekt að þeim fjármunum sem deilt hefur verið út til stórs hluta almennings er ekki vel varið.[...] Aðeins þeir sem keyptu fasteignir í fyrsta sinn á þessu 50 mánaða tímabili standa frammi fyrir því að vísitala neysluverðs hefur hækkað umfram vísitölu fasteignaverðs. Þeir aðilar sem keyptu eignir frá 2005 til 2008 hafa vissulega orðið fyrir miklum forsendubresti þar sem lánin þeirra hafa hækkað frá 24% upp í 38% umfram hækkun fasteignaverðs. Í mörgum þeirra tilfella er ólíklegt að niðurfærslan sé nægjanlega mikil til að hjálpa þeim að eignast jákvætt eigið fé í sínum eignum."