Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu 13. mars til og með 19. mars var 162, sem er töluvert yfir meðaltali síðustu tólf vikna, sem nemur 119 þinglýstum samningum á viku. Þetta kemur fram á vef Fasteignaskrár Íslands.
Velta hefur verið að aukast jafnt og þétt á fasteignamarkaði að undanförnu. Af þessum 119 þinglýstu samningum eru 119 eignir í fjölbýli, 31 samningur um sérbýli og 15 samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var tæplega sex milljarðar milljónir króna og meðalupphæð á samning 37 milljónir króna.
Á sama tíma var átján kaupsamningum þinglýst á Suðurnesjum. Þar af voru ellefu samningar um eignir í fjölbýli, sex samningar um sérbýli og einn samningur um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 371 milljón króna og meðalupphæð á samning 20,6 milljónir króna.
Þá var sautján kaupsamningum þinglýst á Akureyri. Þar af voru fjórtán samningar um eignir í fjölbýli, einn samningur um sérbýli og tveir samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 652 milljónir króna og meðalupphæð á samning 38,4 milljónir króna.
Á Árborgarsvæðinu var tólf kaupsamningum þinglýst. Þar af voru fjórir samningar um eignir í fjölbýli, sjö samningar um sérbýli og einn samningur um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 266 milljónir króna og meðalupphæð á samning 22,2 milljónir króna.
Hagfræðideild Landsbankans spáir því að fasteignaverð mun hækka skarplega á næstu tveimur árum, eða um 25 prósent til og með árinu 2017. Í febrúar hækkaði fasteignaverð um 1,8 prósent, í kjölfarið á svipuðum hækkunum í desember og janúar.