Hækkun fasteignaverðs á síðasta ári var 8,5 prósent en í lok fyrsta ársfjórðungs þessa árs var það um 10 prósent hærra miðað við sama tímabil ársins í fyrra. Hækkunin er enn sem komið að mestu í takti við helstu efnahagsstærðir. Þannig hefur hlutfall íbúðaverðs af tekjum og byggingakostnaði verið um eða rétt yfir langtímameðalti sínu um nokkurt skeið.
Þetta kemur fram í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem komu út í dag. Enn fremur segir að raunverð atvinnuhúsnæðis hafi hækkað töluvert að undanförnu og velta aukist. Verðið var um 18 prósent hærra á fyrsta ársfjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra og hefur hækkað um tæplega helming frá því að það var lægst, á fjórða ársfjórðungi 2011. Það er nú orðið hærra en það hefur verið að meðaltali frá árinu 1990, að því er segir í Peningamálum.
Því er spáð að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á þessu ári, í takti við það sem var í fyrra.