Félag atvinnurekenda vill að mál Mjólkurbúsins Kú gegn Mjólkursamsölunni (MS), sem Samkeppniseftirlitið þarf að rannsaka að nýju eftir að áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísaði því aftur til eftirlitsins, fái flýtimeðferð. Samkeppniseftirlitið sektaði MS um 370 milljónir króna í september vegna misnotkunar fyrirtækisins á markaðsráðandi stöðu þess og þar af leiðandi fyrir brot á samkeppnislögum. Málið snérist um að MS hefði selt samkeppnisaðilum Kú, sem eru tengdir MS, hrámjólk á 17 prósent lægra verði en því sem Kú bauðst.
Samkeppniseftirlitið upplýsti um það í gær að áður óþekktur samningur milli MS og Kaupfélags Skagfirðinga (KS), sem á hlut í MS, hefði verið lagður fram við munnlegan málflutning fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. MS hafi ennfremur byggt málflutning sinn fyrir nefndinni á þessum samningi. MS lét ekki vita af tilurð þessa samnings á meðan að rannsókn málsins stóð yfir hjá Samkeppnisyfirvöldum.
Vilja endanlega niðurstöðu sem fyrst
Áfrýjunarnefndin komst því að þeirri niðurstöðu að fellla yrði fyrri úrskurð úr gildi þar sem MS lét við undir höfuð leggjast að upplýsa stofnunina um þennan áður óþekktan samning við KS. Að mati nefndarinnar komu ekki fram fullnægjandi skýringar af hálfu MS á framkvæmd samningsins fyrir nefndinni. Því mun Samkeppniseftirlitið rannsaka málið aftur, með hliðsjón af umræddum samningi, og komast að nýrri niðurstöðu um hvort MS hafi brotið samkeppnislög.
Ólafur Stephensen, framkvæmdarstjóri Félags atvinnurekenda.
Í frétt á vef Félags atvinnurekenda er þrýst á að málið fái flýtimeðferð. Þar er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra félagsins, að það orki mjög tvímælis að öflug, markaðsráðandi fyrirtæki komist upp með að tefja málsmeðferðina með því að leyna fyrir Samkeppniseftirlitinu gögnum sem síðan séu dregin upp við málsmeðferðina hjá áfrýjunarnefnd.Það sé lykilatriði fyrir smærri keppinauta Mjólkursamsölunnar að hin nýja rannsókn fari ekki í hefðbundinn margra mánaða farveg hjá Samkeppniseftirlitinu heldur fái málið flýtimeðferð þannig að endanleg niðurstaða liggi fyrir sem fyrst. „Það er sömuleiðis brýnt hagsmunamál fyrir neytendur, sérstaklega í ljósi þess að meint brot MS hafa verið á fleiri sviðum. Hjá Samkeppniseftirlitinu er til meðferðar sambærileg kvörtun frá Kú vegna sölu á rjóma og brýnt að niðurstaða í því máli fáist sem fyrst,“ segir Ólafur.