Íslensk eignastýring ehf., félag í meirihlutaeigu Straums fjárfestingabanka, keypti í dag 27,51 prósent hlut í fjármálafyrirtækinu Íslenskum verðbréfum hf. Íslensk eignastýring keypti skömmu fyrir jól hlutu Íslandsbanka í Íslenskum verðbréfum og á nú 58,14 prósent í félaginu.
Í tilkynningu vegna málsins er haft eftir Jakobi Ásmundssyni, forstjóra Straums, að Íslensk Verðbréf sé „spennandi félag og tel ég mikil tækifæri fólgin í þessum ánægjulega áfanga í starfsemi Straums. Starfsfólk Íslenskra verðbréfa hefur unnið gott starf á undanförnum árum þrátt fyrir ákveðna óvissu um framtíðareignarhald á félaginu. Þeirri óvissu hefur nú verið eytt og mun Straumur einbeita sér að taka þátt í uppbygginu Íslenskra verðbréfa ásamt starfsfólki þess og öðrum hluthöfum.“
Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums.
Kjarninn hefur greint ítarlega frá þeim átökum sem átt hafa sér stað um eignarhald á Íslenskum Verðbréfum undanfarna mánuði. MP banki,Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og félag í eigu Garðars K. Vilhjálmssonar gerðu tilboð í 27,5 prósent hlut Íslandsbanka í Íslenskum Verðbréfum í október. Föstudaginn 24. október var ákveðið að taka tilboðinu. Þann sama daga bárust tilboðsgjöfunum upplýsingar um að Straumur hefði lagt inn tilboð í hlutinn þegar allt stefndi í að kaupin myndu ganga í gegn. Þær upplýsingar, sem voru byggðar á orðrómi á fjármálamarkaðnum, reyndust ekki réttar. Straumur gerði aldrei tilboð í hlutinn.
Hins vegar keypti bankinn 64,3 prósent hlut Sævars Helgasonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, í gegnum félagið Gunner ehf., í Íslenskri eignastýringu ehf., sem átti þá 21,83 prósent hlut í Íslenskum verðbréfum. Straumi bauðst síðan að ganga inn í tilboð í aðra hluti í Íslenskum Verðbréfum á grundvelli forkaupsréttarákvæðis. Þar á meðal er 27,5 prósent hlutur Íslandsbanka sem MP banki (10 prósent), LIVE (10 prósent) og Garðar Vilhjálmsson (7,5 prósent) tilkynntu um kaup á í október.