Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra var spurður út niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Hussein Hussein á í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og sagðist ætla að leyfa sér að „fagna því að þetta sé niðurstaða héraðsdóms,“ og að hans mati þyrfti að „tryggja að þessi einstaklingur fái hér efnismeðferð, að sjálfsögðu, eins og hann á rétt á samkvæmt niðurstöðu dómstóla“.
„Ég geri ráð fyrir að það verði tryggt, en auðvitað ef þar til gerð stjórnvöld ákvað að áfrýja málinu snýr það aðeins öðruvísi við,“ sagði Guðmundur Ingi sínu í svari við fyrirspurn Arndísar Önnu K. Gunnardóttur þingmanns Pírata, sem spurði ráðherra að því hvernig honum hefði liðið með að „þurfa að verja ákvörðun og framkvæmd sem var ólögmæt“ og hvort hann treysti Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra fyrir þessum málaflokki, í ljósi niðurstöðu héraðsdóms.
„Ég ætla að leyfa mér að fagna því að þetta sé niðurstaða héraðsdóms, því að mér finnst eðlilegt að tekið sé tillit til fötlunar fólks í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og þegar við höfum öll haft tækifæri til að kynna okkur þennan dóm held ég að það verði áhugavert að sjá á hvaða málsatvikum það er sem héraðsdómur byggir sína niðurstöðu. En út frá því sem brjóstvitið segir okkur gæti þar verið um mikilvægi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að ræða en erfitt að fullyrða eitt eða neitt um það hér úr ræðustól þegar maður hefur ekki haft tækifæri til að lesa yfir dóminn,“ sagði Guðmundur Ingi í ræðustól.
Spurningum Arndísar Önnu um hvernig hvernig þótt að verja þá ákvörðun sem nú hefur verið felld úr gildi og hvort hann treysti ráðherra dómsmála til þess að fara með málaflokkinn lét Guðmundur Ingi ósvarað.
Skoða ætti aðstæður í Grikklandi
Er Arndís Anna kom aftur í pontu spurði hún hvaða lærdóm hann teldi að ríkisstjórnin ætti að draga af þessu máli og hvort ástæða væri til þess að endurskoða þá stefnu ríkisstjórnarinnar að „vísa fötluðu fólki jafnt sem nýfæddum börnum á götuna í Grikklandi.“
Í svari sínu sagði Guðmundur Ingi að aðilum greindi á um það, svo ekki væri minna sagt, um hvort aðstæður í Grikklandi væru þess eðlis að forsvaranlegt væri að senda fólk þangað, og að hann teldi að gera ætti skoðun á því hvernig aðstæður flóttafólks í Grikklandi væru.
„Þegar maður stendur frammi fyrir viðfangsefni, þar sem skiptar skoðanir og kannski mismunandi rökstuðningur er fyrir, eins og í þessu tilfelli hvort það eigi að senda eða ekki senda, þá finnst mér að það sé í hlutverki stjórnvalda að ganga úr skugga um hvort svo sé. Ég held líka að við þurfum að horfa til þess þegar teknar eru ákvarðanir varðandi brottvísun, og mál eru enn inni í kerfinu þrátt fyrir að það séu búin í hinni stjórnsýslulegu meðferð, t.d. fyrir dómstólum, hvort að þar sé um mögulega fordæmisgefandi mál að ræða eða ekki,“ sagði Guðmundur Ingi.