Félagsmenn í VR, aðildarfélögum Landssambands íslenskra verzlunarmanna og Flóabandalagsins, sem eru Efling, Hlíf og VSFK, munu greiða atkvæði um hvort hefja skuli verkföll í lok mánaðarins. Formenn félaganna hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu um þetta.
Ef af verður verða verkföll hjá hópbílafyrirtækjum, hótelum, gististöðum og baðstöðum, í flugafgreiðslu, hjá skipafélögum og matvöruverslunum og olíufélögum. Verkföllin verða fyrst tveggja daga verkföll í tilteknum atvinnugreinum og svo ótímabundið frá 6. júní.
„Félögin hafa undanfarna mánuði reynt að ná sátt við atvinnurekendur um grundvöll nýrra kjarasamninga en árangurinn hefur verið rýr. Öll stéttarfélögin vísuðu deilum sínum til ríkissáttasemjara þann 17. apríl síðastliðinn. Þrátt fyrir milligöngu hans hafa viðræður reynst árangurslausar og var þeim öllum slitið undir lok apríl“ segir í tilkynningu félaganna. Nú sé því boðað til atkvæðagreiðslu um verkföll, og mun atkvæðagreiðslunni ljúka 20. maí og verði verkföll samþykkt hefjast þau þann 28. maí.
„En viðbrögð atvinnurekenda gagnvart sanngjörnum kröfum okkar eru slík að við eigum engra annarra kosta völ. Atvinnurekendur hafa ekki sýnt vilja til að koma viðræðum í þann farveg að þær skili árangri. Þær aðgerðir sem við greiðum nú atkvæði um eru þannig eina leið okkar til að knýja á um breytingar,“ segja formenn félaganna. Þeir telja að stuðningur við fyrirhugaðar aðgerðir sé víðtækur og almennur meðal félagsmanna.
Formennirnir segja að á síðustu misserum hafi verið mörkuð ný stefna í kjaramálum sem valdi því að ójöfnuður hafi aukist. „Við lögðum okkar af mörkum við gerð síðustu kjarasamninga og sýndum ábyrgð. Við öxlum hins vegar ekki ein ábyrgð á stöðugleika á vinnumarkaði. Það dugar skammt að lýsa yfir góðæri, ef ávinningar stöðugleika eiga einungis að falla í skaut atvinnurekenda en launafólki verði einungis skammtaðar lágmarkshækkanir.“