Fjöldi ferðamanna sem hafa heimsótt Ísland það sem af er ári er kominn yfir eina milljón. Það þýðir að fleiri ferðamenn heimsóttu landið á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 en gerðu það allt árið 2014, sem þó var metár. Straumur ferðamanna hefur aukist alla mánuði ársins, frá 23,4 til 34,5 prósent. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Ferðamálastofu Íslands.
Um 123 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í september síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 35 þúsund fleiri en í september á síðasta ári. Aukningin nemur 39,4 prósent milli ára og hefur hún ekki mælst svo há milli ára í september frá því Ferðamálastofa hóf talningar.
Í tilkynningu frá Ferðamálastofu segir að 71 prósent ferðamanna í september síðastliðnum hafi verið af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 22,7 prósent af heildarfjölda og næstfjölmennastir voru Þjóðverjar (10,3 prósent) og Bretar (10,3 prósent). Þar á eftir fylgdu síðan Kanadamenn (5,5 prósent), Norðmenn (4,5 prósent), Frakkar (4,1 prósent), Danir (4,0 prósent), Svíar (3,7 prósent), Kínverjar (3,5 prósent) og Spánverjar (2,8 prósent).
"Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Bretum, Þjóðverjum, Kanadamönnum og og Kínverjum mest milli ára í september en 12.643 fleiri Bandaríkjamenn komu í september í ár en í fyrra, 3.294 fleiri Bretar, 2.734 fleiri Þjóðverjar, 2.347 fleiri Kanadamenn og 2.342 fleiri Kínverjar. Þessar fimm þjóðir báru uppi 67,2% aukningu ferðamanna í september. Dönum, Norðmönnum og Rússum fækkaði hins vegar í september í ár frá því í fyrra," segir í tilkynningunni.
Flogið beint til Egilsstaða
Fjölgun ferðamanna sem heimsækja Íslands hefur verið gríðarleg undanfarin ár og er búist við því að heildarfjöldi þeirra í ár verði um 1,3 milljónir. Allar spár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun á næstu árum og á kynningu á vegvísi í ferðamálum, sem fram fór í gær, sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, að reiknað væri með að gjaldeyristekjur vegna ferðamála yrðu 1.000 milljarðar króna árið 2030. Þær eru áætlaðar um 350 milljarðar króna í ár.
Í dag var einnig tilkynnt um að beint flug milli London og Egilsstaða, sem hefjast mun næsta sumar. Flogið verður tvisvar í viku á milli áfangastaðanna.