Umhverfisstofnun hyggst kæra meðlimi bandaríska vélhjólateymisins Dessert Assassins til lögreglu vegna utanvegaaksturs og umhverfisspjalla á hálendi Íslands. Samkvæmt heimildum Kjarnans verður kæran send lögreglu í dag, en meðal annars er horft til leiðsögumanna frá íslenska ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Rider, sem fóru fyrir hópnum.
Vísir greindi fyrst frá málinu, það er vélhjólaferðinni og fyrirhugaðri kæru á hendur Bandaríkjamönnunum, en þar var hvergi minnst á þátt íslenska ferðaþjónustufyrirtækisins í meintum brotum á náttúruverndarlögum.
Arctic Rider, sem hyggst bjóða ferðamönnum upp á skipulagðar mótorkross vélhjólaferðir næsta sumar, annaðist skipulagningu fimm daga vélhjólaferðar Bandaríkjamannanna um hálendi Íslands í byrjun september, en um prufuferð var að ræða. Myndband af ferð bandaríkjamannanna, þar sem þeir sjást stunda umfangsmikinn utanvegaakstur, hefur vakið athygli á netinu. Að mati Umhverfisstofnunar varðar það sem sést á myndbandinu við lög um náttúruvernd. Meint brot varða allt að fjögurra ára fangelsi.
Jóhannes Sveinbjörnsson, leiðsögumaður hjá Arctic Rider og eigandi fyrirtækisins, fór fyrir hópnum, en auk hans voru með í för tveir starfsmenn Arctic Rider, en annar þeirra var Kári Jónsson, margaldur Íslandsmeistari í mótorkross. Í myndbandinu lýsir einn Bandaríkjamaðurinn hvernig Jóhannes hafði frumkvæðið að því að hópurinn hóf akstur utan slóða á þriðja degi ferðarinnar. "We got pretty juiced up as soon as Joey said: Hey, we are going to go ride off-track."
Athygli vekur að stoðtækjafyrirtækið Össur og fataframleiðandinn Cintamani voru á meðal kostunaraðila vélhjólaferðarinnar.
Eigandi Arctic Rider vísar ásökunum um umhverfisspjöll á bug
Kjarninn náði tali af Jóhannesi Sveinbjörnssyni, eigenda Arctic Rider, en hann var þá staddur í Bandaríkjunum í heimsókn hjá vélhjólamönnunum sem fóru með í fyrrgreinda ferð um hálendi Íslands. Hann vísar ásökunum um að hópurinn hafi framið umhverfisspjöll alfarið á bug.
"Það er mjög særandi að heyra viðbrögð fólks við þessari ferð, því við keyrðum aldrei út fyrir slóða. Við keyrðum á malarvegum, en það liggja jeppavegir út um allt land eins og flestir Íslendingar vita. Fólk sem fer aldrei út úr 101 veit þetta ekki, en svo drullar það það yfir mann eins og maður sé búinn að eyðileggja landið," sagði Jóhannes í samtali við Kjarnann.
Aðspurður um hvort myndbandið sýni ekki í raun vélhjólamennina á akstri utan vega, svaraði Jóhannes: "Við keyrðum þessa slóða út um allt, ég var með ferðina afmarkaða í GPS leiðsögutæki, en svo fórum við upp að Heklu. Hekla er bara vikur og það er eina "off-trackið" sem við gerðum. Svo keyrðum við árfarveg þar niður, sem er bara hraun, það er eina "off-trackið" sem við gerðum."
Hér sjást vélhjólamennirnir aka á svæði utan slóða í námunda við Heklu.
Jóhannes kveðst engar áhyggjur hafa af lögreglurannsókn vegna málsins. "Við leggjum mikið upp úr því að fara aldrei út fyrir slóða. Það var einu sinni sem einn okkar fór út úr slóða, og þá lét ég hann laga grasið, ég var svo harður á þessu. Ég sagði líka við hópinn að ef einhver færi út fyrir slóða þá yrði ekki hjólað meira þann daginn. Ég er ekkert stressaður yfir þessu, því ég veit að við gerðum ekkert rangt."