Frumkvöðullinn Fida Abu Libdeh, stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Geosilica á Ásbrú, sem vinnur fæðubótaefni úr íslenskum jarðhitakísli, hefur verið valin „Maður ársins á Suðurnesjum 2014.“ Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Víkurfrétta.
Fida kom 16 ára til Íslands frá Palestínu, en saga hennar á Íslandi, sem hefur verið ævintýri líkust, er rakin í ítarlegu viðtali við hana á vef Víkurfrétta.
Þar segir meðal annars frá erfiðleikum hennar við að ljúka stúdentsprófi vegna tungumálaörðugleika. „Hún vildi mennta sig meira og gera meira á lífsleiðinni en var komin í öngstræti þegar hún uppgötvaði háskólabrú í Keili á Ásbrú. Þar var hún greind með lesblindu og fékk viðeigandi hjálp til að halda áfram að læra. Það gerði hún með stæl, lauk stúdentsprófi og síðan í framhaldinu þriggja ára háskólanámi í umhverfis- og orkutæknifræði. Hún stofnaði síðan frumkvöðlafyrirtæki með skólafélaga sínum Burkna Pálssyni og nú um áramótin kom vara þeirra á markaðinn en það er hágæða kísilfæðubótarefni, unnið úr náttúrulegum íslenskum jarðhitakísli. Hún lét ekki þar við sitja á menntunarbrautinni heldur fór samhliða vinnu sinni í nýja fyrirtækinu í MBA nám í Háskólanum í Reykjavík sem hún klárar næsta vor. Það var ekki alveg nóg því hún bætti við þriðja barninu en hún er gift Jóni Kristni Ingasyni viðskiptafræðingi. Fjölskyldan býr á Ásbrú og var með fyrstu íbúunum sem flutti þangað árið 2007.
Saga Fidu tengist mörgum jákvæðum þáttum í uppbyggingu Suðurnesja eftir efnahagshrun, þar sem hún náði að nýta sér mörg tækifæri til menntunar og betri framtíðar.“