Ákærurnar á hendur níumenningunum sem hafa verið meðal æðstu stjórnenda FIFA undanfarin ár byggja á kerfisbundnu peningaþvætti, mútum og stórfelldri ólöglegri háttsemi og spillingu. Þetta kemur fram í ákæruskjalinu, sem The Guardian vitnar til í umfjöllun sinni, en Loretta Lynch, saksóknari í Bandaríkjunum, sagði á blaðamannafundi í dag að 47 ákæruatriði væru upptalin sem tengdust meðal annars fjársvikum auk fyrrnefndra atriða. Voru atriðin samantekin í tilkynningu og kynnt á fundinum.
Ákæran byggir á rannsókn Alríkislögreglunnar FBI á spillingu innan FIFA, sem hófst í kjölfar þess að ákveðið var að halda HM í Rússlandi 2018 og Katar 2022. Rannsóknin nær hins vegar til mun fleiri atriða sem aðeins þessara tveggja atriða, samkvæmt sem fram kom á blaðamannafundi saksóknara í dag.
Ákæra verður gefin út á hendur alls níu stjórnendum og stjórnarmönnum FIFA til viðbótar við þá sjö sem voru handteknir í Sviss. Á meðal þeirra sem einnig verða ákærðir, en voru handteknir í morgun, eru Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA frá Trinidad og Tobago, Jeffrey Webb frá Cayman Islands, varaforseti framkvæmdastjórnar FIFA, og Eugenio Figueredo frá Úrúgvæ. Búist er við að nokkrir stjórnendur íþróttamarkaðsfyrirtækja frá Bandaríkjunum og Suður-Ameríku verði líka ákærðir en þeir eru grunaðir um að hafa greitt meira en 150 milljónir dala, um 20,2 milljarða króna, í mútur og greiðslur undir borðið og fengið í staðinn arðvæna fjölmiðlasamninga í tengslum við stórar knattspyrnukeppnir á vegum FIFA. Sepp Blatter, forseti FIFA, er ekki á meðal þeirra sem hafa verið handteknir, en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort hann sjálfur er til rannsóknar hjá bandarískum yfirvöldum.
Lynch sagði að rannsókn hefði leitt til rannsóknar á málum, þar sem djúpstæð spilling hefði verið staðfest, bæði á erlendum vettvangi og í Bandaríkjunum. Í það minnsta tvær kynslóðir stjórnenda hjá FIFA eru til rannsóknar, að því er fram kom í máli Lynch, þar sem grunur leikur á því að þeir hafi misnotað aðstöðu sína til þess að þiggja mútugreiðslsur. Eru brotin sem liggja til grundvallar handtökunum rakin til ársins 1991, sérstaklega greiðslur frá íþróttavöruframleiðendum sem hindruðu framgang samkeppnisaðila með mútugreiðslunum.
Kelly Currie, starfandi saksóknari í Bandaríkjunum, sagði að ekki væru öll kurl komin til grafar ennþá í rannsókn málsins, og að fleiri ákærur yrðu hugsanlega gefnar út á hendur stjórnendum FIFA.