Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Kristín Soffía Jónsdóttir, gerði mögulega sameiningu knattspyrnufélaga í Reykjavík að umtalsefni á borgarstjórnarfundi í gær, þar sem rætt var um uppgjör borgarinnar fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
Óhætt er að segja að rekstur borgarinnar sé í slæmu horfi þessa dagana. Neikvæð skekkja var upp á 1,8 milljarð, miðað við áætlanir, og erfiðleikar framundan, þar sem hækkun launa og launatengdra gjalda, á næstu misserum, mun gera reksturinn enn erfiðari.
Kristín Soffía sagði að dýrt væri að reisa, reka og viðhalda stúkum og öðrum íþróttamannvirkjum, og það mætti spara peninga með því að sameina knattspyrnulið.
Sé mið tekið af því, hvernig íslensk stjórnmál hafa gengið fyrir sig á Íslandi í gegnum tíðina, þá er þetta frekar djarft hjá Kristínu Soffíu. Jafnvel mætti kalla þetta fífldirfsku, enda vel þekkt að grunnurinn í félagastarfi íþróttafélaga er oft nátengdur stjórnmálahreyfingunum. Fólk sem nær frama í stjórnmálum hefur oft bakland úr íþróttafélögunum, svo það er ekki víst að hugmyndir sem þessar séu vinsælar hjá kjósendum.
Hugmyndir eins og þessar eru samt þess virði að skoða þær, og þá hvort þær raunverulega spari einhverja peninga. Enda bendir staðan hjá Reykjavíkurborg til þess að það þurfi að velta við öllum steinum til að styrkja reksturinn.
Það má samt ekki gleyma því að starf íþróttafélaganna er borið uppi með sjálboðaliðastarfi, að miklu leyti.
Aðrar sameiningar mætti einnig skoða, eins og að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu enda svæðið allt eitt þjónustusvæði og uppspretta skatttekna sveitarfélaga þvert á bæjarmörk. Kristín Soffía gæti hugsanlega skoðað þessar hugmyndir, og jafnvel lagt sameiningu knattspyrnuliðanna til hliðar á meðan.
Sem sagt; leggja frekar til að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og spara mikla peninga, ekki síst við yfirstjórn (og svo mætti líka fækka stjórnmálamönnum töluvert í leiðinni), en leyfa knattspyrnuliðunum að halda sér.