Alþjóðlega Ólympíunefndin hefur greint frá hvaða borgir koma til greina sem gestgjafi Ólympíuleikana árið 2024 en umsóknarfrestur rann út á miðnætti í gær. Fimm borgir sóttu um að halda leikana og koma þær allar til greina að mati nefndarinnar. Þær eru Búdapest (Ungverjaland), Hamborg (Þýskaland), París (Frakkland), Róm (Ítalía) og Los Angeles (Bandaríkin). Endanleg kosning um Ólympíuborgina 2024 verður í september 2017.
Samkvæmt frétt New York Times um málið þykja Los Angeles og París líklegustu borgirnar til þess að halda leikana. Ólympíuleikarnir hafa tvívegis verið haldnir í hvorri borg, árin 1932 og 1984 í Los Angeles og árin 1900 og 1924 í París. Frakkar vildu einnig halda leikana árið 2012 en töpuðu þá fyrir Bretum, þegar leikarnir voru haldnir í London.
Fram kemur í frétt bandaríska dagblaðsins að íbúar Hamborgar muni kjósa um framboð borgarinnar í sérstökum kosningum þann 29. nóvember næstkomandi. Því er enn alls óvíst hvort borgin taki þátt í kosningabaráttunni sem nú er framundan.