Óveðrið á Íslandi er ekki það eina sem er að gerast í heiminum í dag. Kjarninn hefur tekið saman nokkra mikilvæga hluti sem eiga sér stað annars staðar í heiminum.
- Þrjár breskar stúlkur sem fóru frá Bretlandi til Tyrklands til að ganga til liðs við Íslamska ríkið eru taldar vera komnar til Sýrlands.
- Stjórnendur HSBC bankans þurfa að koma fyrir þingnefnd í Bretlandi í dag til að svara fyrir gögn sem sýna að bankinn hafi aðstoðað viðskiptavini sína við að svíkja undan skatti.
- Ný rannsókn á lyfi, sem heitir Truvada og á að koma í veg fyrir HIV-smit, sýndi fram á að líkur á smiti geti minnkað um 86 prósent ef hún er tekin áður og eftir að kynlíf er stundað.
- Drónar sáust fljúga yfir kennileitum í París í nótt, aðra nóttina í röð. Það er bannað að fljúga yfir borgina að nóttu til og lágflug almennt krefst leyfis. Verið er að rannsaka málið.
- Barack Obama beitti neitunarvaldi sínu í þriðja sinn til að koma í veg fyrir frumvarp sem átti að leyfa byggingu á risavaxinni olíuleiðslu.