Sett hefur verið á fót ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda. Ríkisstjórnin samþykkti þetta á fundi sínum í morgun.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra munu eiga fast sæti í nefndinni. Þá munu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra taki sæti í nefndinni þegar fjallað er sérstaklega um málefni á þeirra ábyrgðarsviðum, og aðrir ráðherrar munu taka sæti eftir því sem tilefni þykir.
Nefndin á að taka til umfjöllunar stöðu mála, stefnumörkun og stjórnvaldsákvarðanir í málefnum flóttafólks, hælisleitenda og innflytjenda, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. „Markmiðið er að samræma starf ráðuneyta og stofnana í umræddum málaflokkum og meta hvernig framlag Íslands nýtist best til að ná markmiðum um mannúðaraðstoð og aðstoð við flóttamenn, hælisleitendur og innflytjendur og samfélagsmál tengd málaflokknum.“
Ekkert kemur fram um það hvort til skoðunar verði að fjölga kvótaflóttamönnum sem tekið verður á móti, en ríkisstjórnin hafði þegar tilkynnt að 50 flóttamenn kæmu hingað til lands með þessum hætti í ár og á næsta ári. „Mikilvægt er að standa vörð um það vandaða fyrirkomulag sem byggt hefur verið upp hér á landi við móttöku kvótaflóttamanna og jafnframt að samþætta það fyrirkomulag annars vegar og umgjörð hælisleitenda hins vegar,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni er haft eftir Sigmundi Davíð að ríkisstjórnin í heild taki þessi mál mjög alvarlega. Boðað verði til fyrsta fundar nefndarinnar í þessari viku. „Við ætlum okkur að vinna hratt og vel að því að kortleggja þróunina að undanförnu svo okkur verði kleift að bregðast sem best við þessum mikla vanda.“