Þing Norðurlandaráðs verður haldið dagana 1. til 4. nóvember í Kaupmannahöfn en þar koma saman þingmenn, forsætisráðherrar og aðrir ráðherrar frá öllum Norðurlöndunum. Auk þess verður Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO gestur á þinginu. Þingið var ekki haldið í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.
Samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar Alþingis mega aðal- og varamenn úr fyrri landsdeild Norðurlandaráðs sem hlotið hafa endurkjör fara á þingið. Þeir sem fara eru Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Guðmundur Ingi Kristinsson, sem er varamaður og þingmaður Flokks fólksins.
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins fer einnig á þingið sem fulltrúi Vestnorræna ráðsins og Willum Þór Þórsson þingmaður Framsóknarflokksins fer til að hitta norrænna þingforseta sem funda alltaf í tengslum við þingið.
Samkvæmt upplýsingum frá ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fara einnig á þingið Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og þingmaður VG.
Alþingi ekki sett fyrr en undirbúningskjörbréfanefnd hefur lokið störfum
Rúmur mánuður er síðan alþingiskosningar fóru fram hér á landi og standa nú yfir viðræður milli Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að mynda ríkisstjórn á ný. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við RÚV í fyrradag að ljóst væri að Alþingi yrði ekki sett fyrr en undirbúningskjörbréfanefnd hefði lokið störfum. Mikil vinna hefur verið hjá nefndinni undanfarið en nefndarmeðlimir rannsaka meðal annars endurtalningu í Norðvesturkjördæmi.
Forsætisráðherra sagði við RÚV að það væri afar ólíklegt að ný ríkisstjórn og nýr stjórnarsáttmáli yrði kynntur fyrir þann tíma. Hún sagði viðræður formanna flokkanna ganga vel.
„Hins vegar er alveg ljóst að þing verður ekki sett fyrr en undirbúningskjörbréfanefnd hefur lokið störfum og þá væntanlega skilað drögum að niðurstöðu til kjörbréfanefndar sem svo verður kosin þegar þing er sett,“ sagði hún.