Fimm þolendur heimilisofbeldis hafa fengið neyðarhnappa frá lögreglunni, en slíkir hnappar eru afhentir þegar lögreglan metur það sem svo að þolandinn sé í mjög viðkvæmri stöðu gagnvart geranda. Þetta kemur fram í Fréttatímanum.
„Það þarf að vera mikil hætta til staðar og að við metum sem svo að öryggi viðkomandi sé ógnað og við getum ekki tryggt það með vægari hætti,“ segir Alda Hrönn Jóhannesdóttir, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Fréttatímann. Þessi mál eru metin mjög alvarleg, nálgunarbanni hefur ítrekað verið beitt, gerandanum vísað brott af heimilinu og, eða, brot gegn þolandanum eru ítrekuð. Neyðarhnappar af þessu tagi eru tengdir öryggismiðstöð og Neyðarlínan og Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra fá boð um það ef ýtt er á hnappinn.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur úthlutað tveimur hnöppum af þessu tagi, en þegar Alda starfaði hjá lögreglunni á Suðurnesjum hafði þremur hnöppum verið úthlutað þar.
Fjöldi heimilisofbeldismála hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur tvöfaldast eftir að sérstakt átak gegn heimilisofbeldi hófst þar í ársbyrjun. Yfir eitt hundrað mál hafa verið tilkynnt á þessum tíma, og segir Alda það vonandi merki um að fleiri treysti sér til að leita til lögreglu.