Alls fór 37,4 prósent birtingafjár til prentmiðla á árinu 2014. Þrjár af hverjum tíu krónum sem birtingaraðilar keyptu auglýsingar af fóru til sjónvarpsstöðva og um 15 prósent í birtingar á vefauglýsingum. Af þeim hluta fór 17,6 prósent til erlendra fyrirtækja á borð við Google og Facebook. Þetta kemur fram í samantekt Fjölmiðlanefndar á skiptingu birtingafjár milli miðla á Íslandi árið 2014. Samantektin var unnin í samstarfi við fimm stærstu birtingahús landsins, ABS-fjölmiðlahús, Birtingahúsið, MediaCom Íslandi – Fjölmiðlahús, HN markaðssamskipti/Bestun Birtingahús og Ratsjá. Samkvæmt samantektinni voru keyptar auglýsingar fyrir tæpa 4,3 milljarða króna í gegnum birtingahús í fyrra. Vert er að taka fram að fjölmiðlar selja einnig auglýsingar beint og án aðkomu birtingahúsa. Því er heildarumfang auglýsingakökunnar að öllum líkindum um tvöföld þessi upphæð hið minnsta.
Í tilkynningu frá Fjölmiðlanefnd vegna birtingu samantekarinnar segir að til þessa hafi "enginn einn aðili haldið utan um upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli miðla á Íslandi og oft hefur reynst erfitt að nálgast slíkar upplýsingar. Í flestum vestrænum ríkjum er reynt að fylgjast með mikilvægri tölfræði um auglýsingar og upplýsingar um breytingar á auglýsingamarkaði eru birtar jafnóðum. Eitt af hlutverkum fjölmiðlanefndar samkvæmt lögum um fjölmiðla er að fylgjast með þróun og stöðu á fjölmiðlamarkaði. Með samstarfi fjölmiðlanefndar og birtingahúsanna tekur fjölmiðlanefnd, sem hlutlægur aðili, saman þær tölur sem koma frá birtingahúsunum og upplýsir um heildarskiptingu birtingafjár á milli miðla á Íslandi."
Niðurstaða samantektarinnar er sú að prentmiðlar fá enn stærstan hluta af auglýsingakökunni hérlendis, eða 29,7 prósent. Það þýðir að þeir skipta með sér um 1,6 milljörðum króna sem fóru í gegnum birtingahús. Um 1,3 milljarðar króna, eða 29,7 prósent af heildarupphæðinni, fór til sjónvarpsstöðva og 15,4 prósent eða 656 milljónir króna, til útvarpsstöðva. Innlendir vefir skiptu á milli sín 523 milljónum króna (12,3 prósent) og erlendir vefir á borð við Facebook og Google fengu 111 milljónir króna (2,6 prósent). Aðrir fengu 110 milljónir króna, eða 2,6 prósent.
Samkvæmt Fjölmiðlanefnd er þessi skipting í andstöðu við það sem á sér stað í viðmiðunarlöndum, þar sem aukin áhersla er á vefauglýsingar. Í tilkynningu nefndarinnar segir: "Auglýsingalandslagið hefur tekið stórstígum breytingum á Norðurlöndunum á síðustu árum og þróast með þeim hætti að hlutur erlendra vefmiðla hefur aukist mjög á kostnað innlendra miðla. Vefmiðlar fengu langstærstan hluta birtingafjár í Danmörku árið 2013 en sjónvarp kom þar næst á eftir. Dönskum prentmiðlum hefur hins vegar gengið illa að laða til sín auglýsendur á síðustu árum og minnkaði hlutur dagblaða á auglýsingamarkaði um 55% á árunum 2000-2013 í Danmörku.
Þess má einnig geta að niðurstöður samantektar fjölmiðlanefndar og íslensku birtingahúsanna eru um margt á skjön við fréttir sem birtust í febrúar sl. þess efnis að hlutur vefauglýsinga hér á landi hafi farið fram úr sjónvarpsauglýsingum á árinu 2014 og að hlutfall auglýsinga á vefnum væri orðið um 26% af heildarveltu en fréttir þessar voru byggðar á upplýsingum um heildarveltu hérlendrar auglýsingastofu á því ári. Samkvæmt niðurstöðum fjölmiðlanefndar rennur langstærstur hluti birtingafjár á Íslandi ennþá til prentmiðla og eiga vefmiðlar töluvert langt í land með að ná sömu yfirburðastöðu og vefmiðlar í nágrannalöndum hafa náð. Hlutfall innlendra og erlendra vefmiðla nam sem fyrr segir einungis 14,9% af heildarveltu árið 2014 á móti 37,4% hlutfalli prentmiðla og 29,7% hlutfalli sjónvarpsmiðla. Þrátt fyrir að tölvu- og netnotkun sé mest á Íslandi af öllum Evrópuríkjunum2 sker Ísland sig að þessu leyti frá nágrannaríkjum sínum. Þar hefur þróunin verið sú að auglýsendur eru að færa sig yfir á netið í stórum stíl. Markaðsfyrirtækið Group M hefur spáð því að árið 2015 verði Bretland fyrsta landið í heiminum þar sem meira en helmingur allar auglýsingatekna renni til vefmiðla. Þau lönd sem talin eru veita Bretlandi hvað harðasta samkeppni í þessum efnum eru Svíþjóð (vefmiðlum spáð 47% hlutfalli auglýsingatekna 2015), Danmörk (43%), Ástralía (42%) og Noregur (40%)."