Framtíðarvæntingar neytenda í Rússlandi mælast nú lægri en þær mældust í miðri alþjóðlegu fjármálakreppunni og tæplega einn fimmti hluti Rússa, 18 prósent, þénar einungis nógu mikið til að kaupa mat og helstu nauðsynjar. Frá þessu er greint á vef Business Insider.
Þar segir að niðurstöður mælinga rannsóknarfyrirtækisins Nielsen, sem mælir væntingar fólks til framtíðarinnar í 60 löndum, sýni minnkandi væntingar. Væntingavísitala Nielsen, sem svipar til þeirrar vísitölu sem Gallup heldur utan um á Íslandi, féll um sjö stig á fyrsta ársfjórðungi þess árs og er nú 72 stig. Meðaltal allra landanna sem væntingavísitalan nær til var 96 stig í lok síðasta árs og því ljóst að mikil svartsýni ríkir á meðal almennings í Rússlandi. Ástæðan er sú efnahagskreppa sem nú gengur yfir Rússland í kjölfar falls á verði á olíu og gasi og há verðbólga sem hefur leitt af sér síhækkandi vöruverð. Það gerir það að verkum að sífellt fleiri Rússar hafa efni á að kaupa margar vörur.
Til að setja þessa stöðu í samhengi þá var væntingavísitala Nielsen í Rússlandi 75 á fyrsta ársfjórðungi ársins 2009, þegar alþjóðlega fjármálakreppan var á hátindi sínum.
Staðan er meira að segja verri en í Kreppunni miklu. Þá sögðust 4,7 prósent Rússa að þeir ættu einungis pening til að kaupa helstu nauðsynjar. Í nýjustu könnun Nielsen var það hlutfall, líkt og áður segir, 18 prósent eða rúmlega þrisvar sinnum hærra en í Kreppunni miklu.
Þetta eru ekki einu hagtölurnar sem koma illa út fyrir Rússland um þessar mundir. Samkvæmt Rosstat, rússnesku hagstofunni, lækkaði kaupmáttur launa þar í landi fimmta mánuðinn í röð í mars. Kaupmáttur er að dragast saman um 1,8 prósent á ári miðað við þá niðurstöðu.