Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður, hafi ómaklega vegið að öðrum þingmönnum í nefndinni þegar hún sagði að þingmenn VG og Framsóknarflokksins hefðu ekki „treyst sér“ til að vera með á bókun sem lögð var fram og samþykkt af þingmönnum hinna flokkanna í morgun.
Þetta kom fram í máli Sigríðar á þingi í dag. Þingmaður Framsóknarflokksins í nefndinni gagnrýnir einnig orð Rósu Bjarkar og segir í samtali við Kjarnann að samþykkt bókunar í nefndum hafi ekkert með það að gera hver afstaða einstakra þingmanna sé.
Kjarninn greindi frá því í dag að athygli hefði vakið að þingmenn Vinstri grænna og Framsóknarflokksins hefðu ekki stutt bókun á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun þar sem hvers kyns árásir á óbreytta borgara í átökum undanfarna daga á svæðum Ísraels og Palestínumanna voru fordæmdar.
Rósa Björk gerði málið enn fremur að umræðuefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag en þar sagði hún að það væri með ólíkindum að þingmenn VG og Framsóknarflokksins hefðu „ekki treyst sér til þess að taka einarða afstöðu með mannréttindum“ en hefðu „lagst undir hæl Sjálfstæðismanna þegar kemur að því að veigra sér við því einfalda hlutverki að bóka á fundi utanríkismálanefndar“.
Þingmenn taki ekki afstöðu með bókunum
Sigríður mótmælir þessum orðum þingmannsins og segir að Rósa Björk hafi látið að því liggja að efnisleg afstaða sumra nefndarmanna væri slík að þeir treystu sér ekki til þess að vera með þessari bókun.
„Þarna finnst mér ómaklega vegið að nefndarmönnum í háttvirtri utanríkismálanefnd og vil nefna það hér að tilgangur bókanna fastanefnda Alþingis er að bóka afstöðu manna til afgreiðslu tiltekinna mála – fyrirvara sem þingmenn hafa. Að öðru leyti taka þingmenn afstöðu til mála hvers lags eðli sem þau eru, með afstöðu til þingmála hér í þingsal en ekki með bókunum af þessu tagi,“ sagði hún.
Telur Sigríður enn fremur að ómaklega sé að ríkisstjórninni vegið „þegar látið er að því liggja að þingmenn stjórnarflokkanna treysti sér ekki til þess að taka þátt í bókunum sem þessum“.
Hafa miklar áhyggjur af þessum málum
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, segir í samtali við Kjarnann að hún taki undir þessi orð Sigríðar og telur hún orð Rósu Bjarkar vera ósanngjörn um að þingmenn hafi ekki treyst sér til að vera með á bókuninni.
„Við í Framsóknarflokknum höfum miklar áhyggjur af þessum málum – en hvort að það sé við hæfi út frá þingsköpum eða hefðum að leggja fram bókun eða ekki hefur ekkert með það að gera hvort fólk hafi miklar áhyggjur og syrgi það sem er að gerast. Það hefur ekkert með það að gera,“ segir hún.
Bendir hún jafnframt á yfirlýsingu Framsóknarflokksins varðandi átök Palestínumanna og Ísraelsmanna en í henni segir að þingflokkur Framsóknarflokks fordæmi harðlega árásir ísraelska hersins á Palestínumenn á Gaza ströndinni. „Fórnarlömbin eru helst íbúar Palestínu, óbreyttir borgarar, konur og börn. Árásir ísraelska hersins eru gróft brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og glæpur gegn mannúð,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
Bókanir gerðar við afgreiðslu mála – ekki til að lýsa afstöðu í tilteknum málum
Silja Dögg segir að þau hafi gert grein fyrir því á fundi utanríkismálanefndar af hverju þau hefðu ekki verið með á bókuninni.
„Mér finnst að okkur vegið,“ segir hún í framhaldinu. Varðandi það af hverju þau hafi ekki verið með á bókuninni þá bendir hún á að hefðin sé sú á Alþingi að bókanir séu gerðar við afgreiðslu mála – en ekki til að lýsa afstöðu í tilteknum málum. Til þessi noti þingmenn annars vegar ræðustólinn og hins vegar leggi þeir fram þingmál, til að mynda þingsályktanir.
Í reglum um frágang fundargerða fastanefnda Alþingis segir um bókanir um meðferð máls og afgreiðslu þess að einstakir nefndarmenn geti óskað eftir að gera bókun um afstöðu til þeirra mála sem til umræðu eru eða afgreiðslu þess, sem skrá skal í fundargerð. Bókanir skulu vera afmarkaðar og hnitmiðaðar.
„Þannig að þetta er ekki venjan og strangt til tekið hefðbundin þingsköp. Og þetta hefur ekkert með það að gera hver afstaða einstaka þingmanna sé til þess sem er að gerast á þessu svæði núna,“ segir hún.
Vinstri græn fordæmdu valdníðslu í fyrirlýsingu
Þingflokkur Vinstri grænna sendi einnig frá sér yfirlýsingu í síðustu viku þar sem hann fordæmdi valdníðslu, margendurteknar landtökur og brottvísanir palestínskra heimamanna úr byggðum sem svo eru eyðilagðar og lagðar undir ísraelska landtökumenn. Í yfirlýsingunni segir að þær séu gróf brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og mannréttindum.
„Þá eru harkaleg viðbrögð Ísraelsstjórnar við eldflaugaskotum af Gaza strönd til Ísraels, loftárásir með fullkomnum vopnum (eða mannlausum drápstækjum) á ofur þéttbýl svæði Palestínumanna, óverjandi. Lögregluaðgerðir ísraelskra yfirvalda gegn mótmælendum í Jerúsalem eru einnig óverjandi.
Vinstri græn hafi ávallt lagt áherslu á nauðsyn þess að leitað sé friðsamlegra lausna í deilum fyrir botni Miðjarðarhafs. Raunverulegur friður komist aldrei á með vopnavaldi og kúgun og mikilvægt sé að standa vörð um alþjóðalög og brjóta ekki á mannréttindum íbúa svæðisins,“ segir í yfirlýsingu þingflokksins.
Þá minntu þau jafnframt á samþykkt Alþingis Íslendinga frá 2011 um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu og þar með rétt þeirra til eigin ríkis.