Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram stjórnarfrumvarp um breytingar á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar, sem hefur það meðal annars að markmiði að styrkja eftirlit Fiskistofu.
Í frumvarpinu, sem dreift var á Alþingi í gær, er kveðið á um að Fiskistofa fái í ákveðnum tilvikum heimild til að setja á dagsektir á þá sem vanrækja að veita stofnuninni upplýsingar sem viðkomandi ber að veita. Þessar sektir hljóða upp á 30 þúsund krónur fyrir hvern byrjaðan dag og geta hæstar orðið 1,5 milljónir króna, sem jafngildir 50 dagsektardögum.
Samkvæmt frumvarpinu yrði hægt að leggja þessar sektir á þá sem trassa það að skila Fiskistofu vigtar- og ráðstöfunarskýrslum og sérstaklega er hnykkt á því að þessar sektir falli ekki niður þátt fyrir að upplýsingunum sé skilað inn um síðir.
Með frumvarpinu stendur einnig til að auka gagnsæi í störfum Fiskistofu, með því að mæla skýrt fyrir um heimild Fiskistofu til að birta opinberlega ákvarðanir um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa.
„Miðar þetta að því að auka enn frekar gagnsæi í störfum Fiskistofu sem og fyrirsjáanleika fyrir þá sem starfa í greininni og veita bæði þeim og Fiskistofu tilhlýðilegt aðhald,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Efldar heimildir til rafræns eftirlits
Frumvarpið felur að auki í sér lagabreytingar sem miða að því að styrkja heimildir Fiskistofu til rafræns eftirlits. Þannig er lagt til að „eftirlitsmönnum Fiskistofu verði heimill aðgangur að upplýsingum sem verða til við rafræna vöktun á löndunarhöfnum í þeim tilgangi að hafa eftirlit með löndun afla“ og er þess getið að við eftirlitið þurfi að huga að lögum um persónuvernd og gæta þess að eftirlit sé í samræmi við tilgang heimildarinnar, að teknu tilliti til meðalhófs.
Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um Fiskistofu, sem miða að því að veita Fiskistofu heimild til rafræns eftirlits og heimild til vinnslu upplýsinga. Að auki er lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði sem myndu „heimila Fiskistofu að fara í samstarf við útgerðaraðila um notkun myndavéla um borð í fiskiskipum í eftirlitsskyni.“
„Rafrænt eftirlit með myndavélum um borð í fiskveiðiskipum til stuðnings við hefðbundið eftirlit með fiskveiðum er kostnaðarminna auk þess sem slík tæki til eftirlits eru líkleg til að draga úr brottkasti vegna fælingarmáttar slíks eftirlits,“ segir um þetta atriði, í greinargerð frumvarpsins.