Geisladiskurinn er fyrir töluvert löngu hættur að vera vinsælasta formið til dreifingar á tónlist, eins og hann var einu sinni. Ýmsar verslanir hafa þó haldið tryggð við geisladiskana í sölu, og er Starbucks kaffihúsakeðjan á meðal þeirra. Hún hefur haft geisladiska til sölu á meira en tuttugu þúsund kaffihúsum sínum víðs vegar um heim, en tilkynnti í gær um að sölu á geisladiskum yrði hætt í næsta mánuði en þess í staða yrði möguleiki á því að nálgast tónlist í gegnum internetið stórlega bættur. Rúmlega tuttugu ár eru síðan Starbucks hóf að selja geisladiska.
Sala á geisladiskum hefur hríðfallið undanfarin ár. Sé litið sérstaklega til stærsta einstaka markarðarins með tónlist, Bandaríkjanna, þá seldust 257 milljónir eintaka af plötum tónlistarmanna, sem var um 11 prósent minna en árið 2013. Af þessum fjölda var 140,8 milljónir geisladiskar, sem var um 15 prósent minna en árið 2013. Aðeins tvær plötur náðu því að vera seldar í meira en tveimur milljónum eintaka (Platinum), það voru platan 1989 með Taylor Swift, og síðan tónlistin úr barnamyndinni Frozen.
Sala á vínylplötum hefur aukist gríðarlega hratt að undanförnu. Í fyrra voru 9,2 milljónir vínylplatna seldar á heimsvísu, sem var um 51,8 prósent aukning frá því árið 2013. Um þessar mundir er sala á vínylplötum um sex prósent af heildarsölu á tónlist.