Samkvæmt fyrirliggjandi öðru fjáraukalagafrumvarpi ársins 2021 er stefnt að því að bæta við gjöldum upp á 46,5 milljarða króna við rekstur ríkissjóðs frá því sem áður hafði verið ákveðið. Þetta er annað fjáraukalagafrumvarpið sem lagt er fram í ár, en það fyrra sem var lagt fram í maí var til þess fallið að fjármagna fjórða efnahagspakka ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins. Sá pakki var metinn á um 20 milljarða króna en hækka þurfti útgjaldaramma ríkissjóðs vegna hans um 14,9 milljarða króna.
Samtals verður því bætt við 61,5 milljarði króna með fjáraukalögum á yfirstandandi ári að óbreyttu. Það þýðir að heildarútgjöld í ár eru nú, þegar nokkrar vikur eru eftir af árinu, áætluð á 1.254 milljarða króna.
Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem var lagt fram seint á mánudag.
Rúmur helmingur vegna kórónuveirufaraldursins
Nýju útgjöldin sem ráðast á í með framlagningu seinna fjáraukalagafrumvarps ársins eru annars vegar 23,6 milljarðar króna sem rakin eru til kórónuveirufaraldursins og hins vegar 22,9 milljarðar króna vegna annarra þátta.
Þá kostaði tæplega 2,2 milljarða króna til viðbótar við áætlun að kaupa bóluefni og önnur aðföng vegna COVID-19 og 2,1 milljarð króna vegna framkvæmda við bólusetningu og skimana á landamærum. Aðrar heilbrigðisstofnanir en Landspítalinn fá svo 1,4 milljarða króna vegna ófyrirséðs kostnaðar vegna COVID-19 og auk verkefni svo sem hjá Landlækni og lögregluembættum kosta tæpan milljarð króna í nýtt fjármagn. Nokkrir aðrir liðir í þessum hluta kosta svo á bilinu 250 til 628 milljónir króna hver.
Vaxtagjöld rífa hressilega í
Þau útgjöld sem eru ekki talin beint rakin til COVID-19 eru meðal annars ný vaxtagjöld ríkissjóðs, aðallega vegna hækkunar á verðbótum sökum hárrar verðbólgu og dráttarvaxta vegna uppgjörs við ISAVIA. Samtals kostar þessi liður ríkissjóð 8,6 milljarðar króna umfram það sem heimilað var í fjárlögum ársins 2021. Endurmat á útgjaldahorfum vegna lyfja, lækningavara og sjúkrahúsþjónustu erlendis er verðlagt á 5,5 milljarða króna og útgjöld til að kaupa fasteignir, annars vegar Hótel Sögu og hins vegar jörðina Mið-Fossa, eru tæplega fjórir milljarðar króna.
Einnig er lagt til að auka framlög til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi um 1,5 milljarða króna vegna aukins umfangs þeirra.
Desemberuppbót atvinnuleitenda, sem er óskert 92.229 krónur fyrir hvern barnlausan auk þess sem sérstök uppbót er greidd fyrir hvert barn á framfæri viðkomandi, kostar ríkissjóð einn milljarð króna. Þá hafa útgjöld Fæðingarorlofssjóðs reynst meiri en áætlað var vegna þess að fleiri börn fæddust og feður voru duglegri við að taka orlof. Viðbótarkostnaður vegna þess er 940 milljónir króna. Aukinn viðbúnaður vegna farsótta kallar svo á 420 milljón króna viðbótarframlag.
Þá hafa útgjöld Fæðingarorlofssjóðs reynst meiri en áætlað var vegna þess að fleiri börn fæddust og feður voru duglegri við að taka orlof. Viðbótarkostnaður vegna þess er 940 milljónir króna. Aukinn viðbúnaður vegna farsótta kallar svo á 420 milljón króna viðbótarframlag.