Með gjaldeyrisútútboði Seðlabanka Íslands í dag, í tengslum við hina svokölluðu fjárfestingaleið, munu fjárfestar hafa fært 1.049 milljónir evra inn í landið samkvæmt fjárfestingarleiðinni og fyrir þær hafa fengist 206 milljarðar króna, sem svarar til 11% af landsframleiðu ársins 2013. Þetta kemur fram í fréttatilkyningu frá Seðlabanka Íslands. Evran er í dag tæplega 150 krónur, samkvæmt opinberu gengi seðlabankans.
Hinn 9. desember 2014 bauðst Seðlabanki Íslands til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 33 0321, að því er segir í tilkynningu. Jafnframt kallaði Seðlabanki Íslands eftir tilboðum frá aðilum sem vildu selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri. Útboðin tvö um kaup á evrum fóru fram á milli kl. 9:30 og 10:30 í dag. Krónukaupaútboðið fór fram á milli kl. 10:45 og 11:45. Útboðin voru liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011, að því er segir í tilkynningu.