Sé mið tekið af gengi krónunnar gagnvart evru um þessar mundir, 149,8 krónur fyrir evru, fengu fjárfestar tæplega 50 milljarða afslátt á fjárfestingum sínum í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Síðasta útboðið fór fram í gær, en niðurstaðan úr fjárfestingaleiðinni var sú að ríflega einn milljarður evra kom inn í landið í gegnum fjárfestingaleiðina en fyrir þær fengust 206 milljarðar króna. Opinbert gengi Seðlabanka Íslands á evrunni gerir ráð fyrir að evrurnar sem komu inn í landið séu ríflega 157 milljarða króna virði, og nemur mismunurinn á afslættinum sem fjárfestar fengu með þátttöku sinni í fjárfestingaleiðinni, 48,7 milljörðum, miðað við núverandi gengi.
Útboðin, sem nú er lokið en síðustu útboðin fóru fram í gær, voru liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011.
Hinn 9. desember 2014 bauðst Seðlabanki Íslands til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 33 0321, að því er segir í tilkynningu frá því í gær um síðustu útboðin í fjárfestingaleiðinni. Jafnframt kallaði Seðlabanki Íslands eftir tilboðum frá aðilum sem vildu selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri. Útboðin tvö um kaup á evrum fóru fram á milli kl. 9:30 og 10:30 í gær. Krónukaupaútboðið fór fram á milli kl. 10:45 og 11:45. Útboðin voru liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011, að því er segir í tilkynningu.