Upplýsingar sem áttu að koma Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra illa, og hótað var að gera opinberar í fjárkúgunarbréfi sem stílað var á eiginkonu hans, snérust um að Sigmundur Davíð eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan ehf. hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá MP banka. Aðaleigandi Pressunnar er Björn Ingi Hrafnsson. Frá þessu er greint á Vísi.
Í umfjöllun miðilsins er rætt við Arnar Ægisson, framkvæmdastjóra Pressunnar, um rúmlega 60 milljón króna hækkun á skuldum félagsins á árinu 2013. Þar segir hann að líklega sé um að ræða yfirfærslu á yfirdrætti sem var í eignarhaldsfélaginu Vefpressunni ehf. Hann staðfestir að yfirdrátturinn sé hjá MP banka.
Arnar hafnar hins vegar öllum tengslum Pressunnar við forsætisráðherra. Hann hafnar einnig að lánafyrirgreiðsla MP banka hafi verið fengin að tilstillan Sigmundar Davíðs eða aðilum tengdum honum.
Systur reyna að kúga fé út úr forsætisráðherra
Í gærmorgun greindi Vísir frá því að tvær konur hefðu verið handteknar fyrir að reyna að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Konurnar heitar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand og eru systur. Samkvæmt reifarakenndri frásögn fjölmiðla áttu þær að hafa sent handskrifað bréf heim til Sigmundar Davíðs þar sem þess var krafist að hann greiddi þeim nokkrar milljónir króna. Annars myndu upplýsingar sem áttu að vera viðkvæmar fyrir hann að verða gerðar opinberar. Upphaflega var greint frá því að upplýsingarnar hafi snúast um fjárhagsleg tengsl Sigmundar Davíðs og Björns Inga Hrafnssonar, aðaleiganda og útgefanda DV. Stundin sagði að upplýsingarnar væri tölvupóstur sem farið hefði á milli forsætisráðherra og Björns Inga í tengslum við kaupin á DV í fyrra. Upplýsingarnar áttu því að tengja Sigmund Davíð við kaup Björns Inga á DV.
Nýjustu fregnir herma hins vegar að þær upplýsingar snúist um að forsætisráðherrann eða aðilar tengdir honum hafi beitt sér fyrir því að Pressan ehf. fengi lánafyrirgreiðslu hjá MP banka.
Málið var strax tilkynnt til lögreglu sem réðst í umfangsmiklar aðgerðir sem leiddu til þess að systurnar voru handteknar í Hafnarfirði, sunnan Vallahverfis, á föstudag. Í fjárkúgunarbréfinu stóð að forsætisráðherra ætti að skilja peningana sem þær vildu fá á þeim stað.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að þær hafa báðar játað verknaðinn við yfirheyrslur og þeim sleppt að þeim loknum. Systurnar geta átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi fyrir fjárkúgunina sem þær hafa játað á sig.
Neita fjárhagslegum tengslum
Björn Ingi Hrafnsson birti stöðuuppfærslu á Facebook síðdegis í gær þar sem hann sagði Sigmund Davíð ekki hafa fjármagnað kaup Pressunnar á DV og að hann ætti ekki hlut í blaðinu. Þar sagði hann einnig: „Ég er harmi sleginn yfir fregnum dagsins. Hugur minn er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa máls. Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu. Að öðru leyti óska ég eftir því að tekið sé tillit til þess að hér er mannlegur harmleikur á ferðinni og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.“
Sigmundur Davíð sendi frá sér yfirlýsingu um málið á sjötta tímanum í gær. Þar segir hann m.a.: „Vegna frétta sem birst hafa um málið í dag með vísan til hótananna er rétt að taka fram að ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, né hef ég komið að kaupum Vefpressunnar á DV á nokkurn hátt.“