Fjármagnshöftum var aflétt á Kýpur í gær, rúmum tveimur árum eftir að þau voru sett á. Afléttingin er traustsyfirlýsing fyrir bankakerfið í landinu þrátt fyrir þriggja ára kreppu, segir forsetinn Nicos Anastasiades.
Höftin voru sett á í lok mars 2013 vegna ótta við áhlaup á banka. Þau voru losuð í janúar síðastliðnum en losuð alveg í gær. Það þýðir að ekki er lengur þak á millifærslur einstaklinga í erlenda banka, en það var 20 þúsund evra hámark á slíkar millifærslur. 20 þúsund evrur samsvara tæpum þremur milljónum króna. Þá var einnig hámark á úttektir úr bönkum fyrir fólk á leið til útlanda, en það hámark var 10 þúsund evrur á einstakling, eða tæplega ein og hálf milljón króna. Á Íslandi er hámarksúttekt gjaldeyris 350 þúsund krónur.
Kýpur var eina evruríkið sem setti á fjármagnshöft, en þau voru sett á í samráði við stjórnvöld í Brussel og hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ríkið fékk tíu milljarða evru neyðarlán frá þessum stofnunum eftir að stærstu bankarnir riðuðu til falls. Kýpverskir bankar töpuðu um 4,5 milljörðum evra á fjárfestingum í Grikklandi, sem jafngildir um fjórðungi vergrar landsframleiðslu.
Í upphafi voru höftin þannig að ekki var hægt að taka út meira en 300 evrur á dag, en þessum hluta haftanna var aflétt strax í lok árs 2013.
Anastasiades sagði í lok síðustu viku, þegar hann tilkynnti um væntanlegt afnám haftanna, að bankarnir væru nú að mestu leyti óháðir því sem gerist í nágrannaríkinu Grikklandi, sem á enn í gríðarmiklum erfiðleikum. Aðskilnaðurinn var eitt skilyrðanna fyrir fjárhagsaðstoð til Kýpur.
Fjármagnshöftin hafa oft verið borin saman við höftin á Íslandi. Aðstæðurnar eru þó og voru ólíkar. Á Kýpur voru höftin sett á til þess að koma í veg fyrir áhlaup á banka, og bönkum var lokað í talsverðan tíma vegna þessa. Á Íslandi voru þau liður í aðgerðum til að tryggja stöðugleika krónunnar. Aðstæðurnar eru einnig ólíkar vegna þess að á Kýpur er notuð evra, sami gjaldmiðill og annars staðar á evrusvæðinu. Kýpverjar áttu ekki í erfiðleikum með að skipta sínum gjaldmiðli í aðra gjaldmiðla eins og Íslendingar. Þá hafa fjármagnshöftin verið við lýði á Íslandi í talsvert lengri tíma en á Kýpur, eða í sex og hálft ár.