Íslendingar þénuðu 124,6 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2020. Það var 9,4 milljörðum krónum minna en árið áður og tekjurnar drógust saman um sjö prósent. Þar spiluðu áhrif kórónuveirufaraldursins stóra rullu en arðgreiðslur, leigugreiðslur og vaxtatekjur drógust allar saman vegna beinna áhrifa hans. Búast má við því að þær hafi hækkað á ný á árinu 2021 þar sem arðgreiðslur tók aftur við sér af krafti, eftirspurn eftir leiguhúsnæði, sérstaklega íbúðarhúsnæði, jókst að nýju og vextir tóku að hækka úr sögulegri lægð.
Þetta kemur fram í umfjöllun um álagningu einstaklinga á árinu 2021 í Tíund, fréttablaði Skattsins, sem Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur skrifar.
Þar fjallar hann um að fjármagnstekjur hafi aukist mjög hratt í aðdraganda hrunsins og að á árinu 2007 hafi þær verið 444 milljarðar króna. Eftir bankahrunið drógust þær skarpt saman og voru til að mynda 80,6 milljarðar króna árið 2011. Frá þeim tíma jukust þær ár frá ári fram til ársins 2018, þegar þær minnkuðu um 21,2 prósent.
Fjármagnstekjur drógust saman
Þeir sem græða á því að nota peninganna sína í fjárfestingar borga fjármagnstekjuskatt. Sá skattur er 22 prósent, sem er mun lægra hlutfall en greitt er af t.d. launatekjum, þar sem skatthlutfallið er frá 31,45 til 46,25 prósent eftir því hversu háar tekjurnar eru.
Nokkrar breytingar voru gerðar í álagningu fjármagnstekjuskatts milli ára. Nú þarf til að mynda ekki að greiða skatt af vöxtum, arði og söluhagnaði hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði sem var undir 300 þúsund krónum og frítekjumark hjóna var 600 þúsund krónur.
Auk þess er einungis helmingur af útleigu íbúðarhúsnæðis til búsetu leigjanda og sem fellur undir húsaleigulög skattskyldur ef ein íbúð er leigð út.
Alls greiddu 25.389 framteljendur 22,5 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt vegna ársins 2020. Það var 11,2 prósent minna en árið áður, og tekjur ríkissjóðs vegna hans drógust saman um 2,9 milljarða króna. Áðurnefndur skattafsláttur, spilaði þar rullu en Páll bendir á að skatturinn hafi minnkað meira en skattstofninn. Það megi „ætla að skattabreytingarnar hafi létt fjármagnstekjuskatti af um 14.361 fjölskyldum.“