Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, segist telja að Grikkir komist að samkomulagi við lánardrottna sína, Evrópusambandið, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, á næstu klukkustundum eða dögum. Þetta samkomulag muni gera öllum ljóst að Grikkland geti starfað innan ramma laga og reglna og muni jafnframt útkljá vandræði Grikklands fyrir fullt og allt.
Þetta sagði fjármálaráðherrann í viðtali á Channel 4 í Bretlandi nú seinni partinn. Varoufakis er staddur í London þar sem hann fundaði fyrr í dag með George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands.
Greece's finance minister tells me he expects a deal with Eurozone "within hours or days": http://t.co/NI66R4UAJZ - 5 minute video
— Paul Mason (@paulmasonnews) February 2, 2015
Auglýsing
Átök stærsta ógnin við alþjóðahagkerfið
Osborne telur að ef komi til átaka milli Grikklands og evruríkjanna gæti það orðið stærsta ógnin við alþjóðahagkerfið. Þetta sagði hann eftir fund með Varoufakis í London í dag.
Varoufakis er á ferðalagi um Evrópu til þess að afla stuðnings við málstað Grikkja, sem vilja endursemja við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um heimtur á lánum.
Eftir fund Osborne og Varoufakis í London í dag sagðist Osborne hafa hvatt Varoufakis til þess að vera skynsamur, en jafnframt hefðu þeir rætt um mikilvægi þess að evruríkin hrintu í framkvæmd betri áætlunum um hagvöxt og sköpun starfa. Hann hvatti eindregið til þess að komist verði að samkomulagi.
Varoufakis talaði við ráðamenn í Frakklandi í gær og heldur nú til funda við Matteo Renzi forsætisráðherra Ítalíu og við Jean-Claude Juncker forseta framkvæmdastjórnar ESB. Juncker og Varoufakis munu funda í Brussel á miðvikudag.