Að mati Ríkisendurskoðunar fer langur málsmeðferðartími hjá embætti Ríkissaksóknara, sem er tilkomin vegna aukins álags án þess að auknar fjárveitingar til embættisins hafi fylgt, í bága við réttarfars- og stjórnsýslureglur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Innanríkisráðuneytið hefur ekki stutt nægilega vel við starfsemi Ríkissaksóknara þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þess til að vekja athygli ráðuneytisins á því að fjárhagsstaðan kæmi í veg fyrir að embættið gæti afgreitt mál innan eðlilegs tíma.
Frá árinu 2009 hafa meðalframlög úr ríkissjóði til Ríkissaksóknara verið 160 milljónir króna á ári og gjöld embættisins hafa verið sama krónutala. Um 79 prósent allra útgjalda voru vegna launa þeirra 16 starfsmanna sem starfa hjá embættinu. Þvi er ljóst að ekkert svigrúm er til að bæta við starfsfólki til að takast á við auknar annir með sömu fjárframlögum.
Tekur 150 daga að ákveða saksókn
Í skýrslunni segir að Ríkissaksóknari hafi sett sér þá skjalfestu starfsreglu árið 2009 að taka skuli ákvörðun um saksókn innan 30 daga frá því að mál berast. „Að meðaltali tók rúma 87 daga að afgreiða sakamál sem bárust embættinu árið 2011, 183 daga vegna ársins 2012 og 150 daga vegna 2013 (miðað við ágúst 2014).
Embættið hefur því ekki starfað í samræmi við starfsreglu sína þessi ár þótt ríkissaksóknari telji hana í fullu gildi. Því hefur hins vegar tekist að afgreiða kærumál vegna ákvarðana lögreglu eða Sérstaks saksóknara, um að vísa kæru frá eða fella niður mál, innan lögbundins frests sem er 30 dagar. Mikil vinna við slík mál hefur þó átt þátt í að seinka afgreiðslu sakamála.“
Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Að mati Ríkisendurskoðunar verður innanríkisráðuneytið að styðja betur við starfsemi Ríkissaksóknara. „Frá árinu 2008 hefur það t.d. ekki óskað eftir fjárlagatillögum frá embættinu sem byggja á raunverulegri fjárþörf þess til að geta sinnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Embættið hefur hins vegar ítrekað vakið athygli ráðuneytisins á því að fjárhagsstaða þess kæmi í veg fyrir að það gæti afgreitt sakamál innan eðlilegs tíma og sinnt lögbundnu eftirlits- og samræmingarhlutverki sínu nægilega vel.
Oft hefur þó verið fátt um svör frá ráðuneytinu. Þá telur Ríkisendurskoðun að innanríkisráðuneyti hefði þurft að gæta betur að áhrifum Sérstaks saksóknara á starfsemi Ríkissaksóknara og beita sér fyrir meira jafnræði í skiptingu fjárveitinga milli þeirra. Árin 2009‒15 námu fjárveitingar til Sérstaks saksóknara 5.538,5 m.kr. en 1.175 m.kr. til Ríkissaksóknara.
Engu að síður eru flest sakamál á könnu Ríkissaksóknara, auk þess sem embættið skal m.a. að hafa eftirlit með starfsemi Sérstaks saksóknara og flytja mál hans fyrir Hæstarétti. Ráðuneytið vinnur nú að gerð réttaröryggisáætlunar sem er m.a. ætlað að tryggja að litið sé til áhrifa á réttarvörslukerfið í heild þegar teknar eru ákvarðanir um viðamiklar breytingar. Ríkisendurskoðun telur það jákvæða þróun.“
Nýtt frumvarp framfaraskref, en ekki nóg
Ríkisendurskoðun telur nýtt frumvarp Ólafar Nordal innanríkisráðherra, sem var lagt fram í lok janúar síðastliðins, sem ráðgert er að taki gildi í byrjun júlí næstkomandi, framfaraskref.
Frumvarpið gerir meðal annars ráð fyrir að Héraðssaksóknari taki yfir flest sakamál sem Ríkissaksóknari sinnir nú. „Verði það [frumvarpið] að lögum muni umfang starfsemi Ríkissaksóknara þó varla minnka mikið þótt hún taki breytingum, m.a. vegna fjölgunar kærumála.Nefnd á vegum innanríkisráðuneytis skilaði drögum að frumvarpi til laga um millidómstig þann 25. febrúar 2015. Áformað er að Ríkissaksóknari flytji öll sakamál fyrir hönd ákæruvaldsins á því stigi. Búist er við að málsmeðferð á millidómstigi verði umfangsmeiri en fyrir Hæstarétti því sönnunarfærsla muni eiga sér stað þar. Það á ekki við um málsmeðferð fyrir Hæstarétti. Þetta mun leiða til verulega aukins álags á Ríkissaksóknara en embættið hafði litla aðkomu að vinnu nefndarinnar. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að hafa virkt samráð við Ríkissaksóknara við áframhaldandi vinnslu málsins með tilliti til áhrifa þess á embættið.“