Atvinnuleysi mældist fjögur prósent í mars síðastliðnum, sem er 2,1 prósentustigi lægra en í sama mánuði í fyrra þegar atvinnuleysi mældist 6,1 prósent. Í mars 2013 var 6,9 prósent atvinnuleysi hér á landi.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Samkvæmt rannsókninni voru að jafnaði 190.100 einstaklingar á vinnumarkaði í mars, sem jafngildir 82 prósenta atvinnuþátttöku. 182.400 þessara einstaklinga voru starfandi og 7.700 voru í atvinnuleit. Milli ára hefur starfandi fólki fjölgað um 10.400 einstaklinga og atvinnulausum fækkaði um 3.500 einstaklinga. Fólki sem stendur utan vinnumarkaðarins fækkaði líka, um 4.300 manns.
Atvinnuleysi er meira meðal karla en kvenna, en 4.100 karlar eru án atvinnu, eða 4,2 prósent vinnuafls. 3.500 konur eru atvinnulausar, eða 3,9 prósent. Fleiri karlar eru á vinnumarkaði en konur, 95.300 karlar en 87.100 konur. 24.600 konur eru utan vinnumarkaðarins en 17.200 karlar.
Þegar búið er að árstíðaleiðrétta atvinnuleysistölurnar er atvinnuleysi 3,9 prósent. Fjöldi atvinnulausra samkvæmt árstíðaleiðréttingu var 7.500 manns, sem er fækkun um 1.400 frá því í febrúar. Hlutfall atvinnulausra fór því úr 4,6 prósentum í febrúar í 3,9 í mars. Hagstofan árstíðaleiðréttir alltaf tölur um atvinnuleysi þar sem mælingar sýna að íslenskur vinnumarkaður breytist eftir mánuðum. Með því að leiðrétta er betur hægt að bera saman mánuði.