Um 300 manns voru handteknir í Bihar-héraði á Indlandi á dögunum vegna prófsvindls. Um var að ræða foreldra og vini skólabarna sem klifruðu upp veggi skólabyggingar til að hjálpa börnunum í prófi sem börnin þreyttu. Um 750 skólabörnum hefur verið vikið úr skóla vegna atviksins. Vefsíða BBC greinir frá málinu.
Talið er að um 1,4 milljónir skólabarna séu nú að taka brautskráningarpróf í Bihar héraði um þessar myndir, en niðurstöður prófanna skipta sköpum fyrir framtíð barnanna.
Áðurnefnt atvik þykir allt hið neyðarlegasta fyrir stjórnvöld í Bihar, en umræða um það hefur farið víða á samfélagsmiðlum þar sem óspart hefur verið gert grín að því.
Skólabörnin fengu mörg hver miða með svörum frá vitorðsmönnum sínum í prófsvindlinu og þá var lögreglumönnum, sem stóðu vaktina fyrir utan skólann, mútað fyrir að aðhafast ekkert.
Yfirmaður menntamála í Bihar hefur fordæmt atvikið en segir að myndir af því, sem hafa farið sem eldur um sinu á internetinu, segi ekki alla söguna. Hann varaði foreldra við að hjálpa börnum sínum í skólaprófum, og sagði slíkt bara skaða börnin til langs tíma.
Menntamálaráðherra héraðsins segir nær ómögulegt að koma alfarið í veg fyrir prófsvindl, vegna fjöldans sem það stunda. „Þrír til fjórir aðstoða hvern námsmann sem þýðir að sex til sjö milljónir eru að hjálpa skólabörnum að svindla í prófum.“