Mörg ofbeldisverk hafa verið framin í Tyrklandi í dag, í átökum milli öryggissveita Tyrkja annars vegar og hermanna Kúrda hins vegar. Í héraðinu Sirnak lést einn hermaður þegar þyrla var skotin niður og fjórir lögreglumenn létust í sprengjuárás á svæðinu Silopi í sama héraði. Í Istanbúl hófu tveir einstaklingar skothríð fyrir utan ræðisskrifstofu Bandaríkjanna, örfáum klukkustundum eftir að sprengja sprakk fyrir utan lögreglustöð í borginni í nótt. Enginn meiddist í árásinni fyrir utan ræðisskrifstofuna en þrír lögreglumenn og sjö óbreyttir borgarar slösuðust þegar sprengjan sprakk. The Guardian og BBC greina frá.
The Guardian birtir myndband frá lögreglustöðinni þar sem hópur fólks safnaðist saman, eftir að sprengjan sprakk.
Spenna milli Tyrkja og Kúrda hefur farið stigvaxandi.Vopnahléi í langvarandi illdeilum virðist hafa lokið í síðasta mánuði, þegar Tyrkir hófu sprengjuárásir á búðir Verkamannaflokks Kúrda (PKK) í norðurhluta Írak, á sama tíma og Tyrkir hófu loftárásir gegn herliðum Íslamska ríkisins (ISIS). Í kjölfar árasanna í dag réðist tyrkneski herinn að skotmörkum PKK í Írak í hefndarskyni, að því er segir í umfjöllun BBC.
Foringi PKK hefur sakað Tyrki um að vernda ISIS með árásum á kúrdneska hermenn en Kúrdar hafa barist gegn framgangi Íslamska ríkisins í Írak og Sýrlandi með árangri. Tyrkland, og fleiri vestræn lönd, telja PKK aftur á móti vera hryðjuverkasamtök.