Fjöldi rafbíla á Íslandi hefur fimmfaldast frá því í janúar 2014. Bílar sem notast einvörðungu við rafmagn sem orkugjafa voru þá um eitt hundrað en eru í dag yfir fimm hundruð. Svokallaðir tvinnbílar (e. hybrid), þar sem stuðst er við rafmagn og bensín til skiptis sem orkugjafa, eru enn töluvert vinsælli á meðal Íslendinga en rafbílarnir. Þeir eru um 1.500 talsins og því þrisvar sinnum fleiri en rafbílarnir. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Climate Action programme, sem vinnur með Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, við að búa til samband milli fyrirtækja stjornvalda og stofnana með það fyrir augum að hraða alþjóðlegri sjálfbærni og tilurð „græna hagkerfisins“.
Þar sem nánast öll orka á Íslandi sé unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum – vatnsafli eða jarðvarma – þá sé landið talið sérstaklega hentugt fyrir því að bylta samgöngumáta sínum. Þar er fyrst og fremst horft til þess að skipta út eldsneyti unnið úr olíu fyrir rafmagn til að knýja áfram helstu samgöngutæki þeirra 329 þúsund manna sem hér búa, bæði einkabíla og almenningssamgöngur.
Í fréttinni er sagt frá því að Orka Náttúrunnar (ON), systurfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hafi tekið að sér leiðandi hlutverk í þessu átaki með því að leggja til tollfrjálsar hraðhleðslustöðvar víða á höfuðborgarsvæðinu. Í byrjun árs 2014 voru engar slíkar stöðvar á vegum fyrirtækisins, en í dag eru þær tíu. Að sögn ON eru stöðvar fyrirtækisins í meiri notkun að meðaltali en sambærilegar stöðvar í Noregi,en Norðmenn hafa gengið lengst allra í að innleiða hvata til að hraða rafvæðingu samgöngutækja hjá sér.