Fjölmiðlanefnd hefur ekki aðhafst sérstaklega vegna umfjöllunar Íslands í dag þann 28. maí síðastliðinn, þegar fjallað var um MS í þættinum án þess að tekið væri fram að fyrirtækið borgaði fyrir umfjöllunina. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, segir að nefndinni hafi ekki borist formleg kvörtun vegna málsins en kvartanir fái alla jafna forgang í vinnu nefndarinnar. Þá hafi nefndin ekki tekið þetta einstaka mál upp að eigin frumkvæði, eins og henni er heimilt að gera, en hefur lagt áherslu á að klára leiðbeinandi tilmæli sem ná um kostaðar umfjallanir og fleiri atriði sem varða auglýsingakafla fjölmiðlalaga.
Fjölmiðlanefnd hefur ekki fundað síðan málið rataði í fjölmiðla og því ekki tekið ákvörðun um hvort hún muni aðhafast sérstaklega.
Ísland í dag birti innslag um auglýsingaherferð Mjólkursamsölunnar þann 28. maí síðastliðinn. Stundin fjallaði um málið, sem Kjarninn vakti fyrst athygli á, og hafði eftir Svani Valgeirssyni, auglýsinga- og mannauðsstjóra 365, að mistök hafi átt sér stað við vinnslu efnis og því hafi ekki verið tekið fram að um kynningu hafi verið að ræða.
Elfa Ýr segist vonast til að leiðbeinandi tilmæli Fjölmiðlanefnd verði tilbúin í haust. Vinna hefur staðið yfir, meðal annars í samráði við Neytendastofu sem nýlega gaf út leiðbeiningar um auðþekkjanlegar auglýsingar. Um miðjan aprílmánuð óskaði Fjölmiðlanefnd meðal annars eftir upplýsingum frá sjónvarpsstöðvunum um umfjallanir í fréttaþáttum og tegund þeirra. Elfa Ýr segir kostaðar umfjallanir, án þess að það sé sérstaklega tekið fram, varða fleiri fjölmiðla en aðeins Stöð 2 og að gera þurfi „skurk“ í þessum málum. „Í stað þess að fara í stakt mál höfum við lagt áherslu á að klára þessi leiðbeinandi tilmæli,“ segir hún.
Upphafleg frétt hefur verið uppfærð með upplýsingum um að Fjölmiðlanefnd hefur ekki fundað frá því að málið kom upp í fjölmiðlum.