Fjölmiðlanefnd óskaði í gær eftir frekari upplýsingum um eignarhald framtakssjóðs sem á 18,6 prósent hlut í fjölmiðlafyrirtækinu 365 miðla. Kjarninn greindi frá því á þriðjudag að fjölmiðlanefnd hefði tekið ákvörðun um að fara ekki fram á frekari upplýsingar frá 365 um eignarhald sjóðsins. Nú hefur þeirri ákvörðun verið snúið.
Elva Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, segir að hún hafi í gær óskað eftir frekari upplýsingum um eignarhald framtakssjóðsins, sem heitir Auður 1 og er í stýringu hjá fjármálafyrirtækinu Virðingu. Erindi þess efnis var sent til Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra 365 miðla, og Einars Þórs Sverrissonar, lögmanns og stjórnarmanns 365 miðla, og fengu þeir frest til 5. janúar til að svara erindinu. „Það þýðir að nefndin óskar eftir upplýsingum um hverjir eigendur eru og hversu stóran hlut þeir eiga í framtakssjóðnum,“ segir Elva.
Eigendur sjóðsins sagðir ekki skipta máli
Síðastliðinn föstudag var send út tilkynning um að 365 miðlar, langstærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, og Tal hafi sameinast undir merkjum 365 eftir að Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna félaganna, með skilyrðum. Við það eignuðust fyrrum hluthafar Tals 19,8 prósent hlut í sameinuðu félagi, sem mun bera nafn 365 miðla. Stærsti eigandi Tals er Auður 1, sjóður í stýringu hjá Virðingu, en hann á 18,6 prósent beinan hlut í 365 miðlum eftir að samruninn gekk í gegn. Líkt og tíðkast með framtaks- og fjárfestingasjóði er eignarhald hans ekki opinbert.
Stærsti eigandi Tals er Auður 1, sjóður í stýringu hjá Virðingu, en hann á 18,6 prósent beinan hlut í 365 miðlum eftir að samruninn gekk í gegn. Líkt og tíðkast með framtaks- og fjárfestingasjóði er eignarhald hans ekki opinbert.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingum frá fjölmiðlanefnd á þriðjudag um hvort kallað hefði verið eftir upplýsingum um hvert endanlegt eignarhald á sjóðnum Auður 1 væri, enda segir í fjölmiðlalögum að nefndin eigi að fá allar upplýsingar og gögn svo „rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar“.
Í svari Elvu á þriðjudag kom fram að nefndin hefði leitað eftir upplýsingum um eignarhaldið í haust. „Við fengum þær upplýsingar að Virðing færi með yfirráð yfir Auði 1 og það væri byggt á því að starfsmenn Virðingar væru stjórnarmenn í Auði 1 og héldi á meirihluta atkvæðisréttar í félaginu. Því skipta eigendur sjóðsins ekki máli. Þeir hafi ekkert að gera með stefnu sjóðsins, heldur Virðing. Út frá fjölmiðlalögunum eru það yfirráðin sem skipta öllu máli.[...] Það var mat nefndarinnar, út frá þessum upplýsingum, að út frá eignarhaldinu skipti ekki máli hverjir væru eigendurnir, heldur hverjir færu með yfirráð yfir sjóðnum. Og það er Virðing“.
Frummat, ekki stjórnvaldsákvörðun
Í pósti sem Elva sendi Kjarnanum í dag segir að ákvörðun fjölmiðlanefndar hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, heldur hafi verið um frummat nefndarinnar að ræða.
Í pósti Elvu segir ennfremur: „ Vakin er athygli á því að samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laga um fjölmiðla getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist upplýsinga og gagna til að rekja megi eignarhald og/eða yfirráð allra fjölmiðla til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila. Þess ber að geta að fjölmiðlanefnd hefur heimild til að leggja á stjórnvaldssekt sé brotið gegn ákvæði 17. gr. um skil á upplýsingum um eignarhald og yfirráð“.