Í dag eru fjórar vikur síðan að aðalmeðferð í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings lauk. Samkvæmt lögum skal dómari birta dóm sinn innan fjögurra vikna, en það hefur komið fyrir í stærri málum að það frestist. Verði dómur ekki kveðin upp innan átta vikna gæti hins vegar þurft að endurflytja málið.
Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari hjá sérstaks saksóknara, segir embættinu ekki hafa borist nein tilkynning frá héraðsdómi um að dómur liggi fyrir.
Alls eru níu fyrrum starfsmenn Kaupþings ákærðir í málinu. Þeirra á meðal eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings. Ákærðu er gefið að sök að hafa ýmist komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi, frá hausti 2007 og fram að falli bankans haustið 2008, og aukið seljanleika þeirra með „kerfisbundnum“ og „stórfelldum“ kaupum, eins og segir í ákæru, í krafti fjárhagslegs styrks bankans.
Aðalmeðferð málsins tók 130 klukkustundir og stóð yfir í 22 daga. Málið er eitt stærsta mál sinnar tegundar í Íslandssögunni.
Fleiri mál framundan
Þrír sakborninganna í málinu hafa þegar hlotið þunga dóma í Al Thani-málinu svokallaða. Í því máli voru Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, dæmdir sekir í Hæstarétti í febrúar síðastliðnum. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár. Þeir hafa allir hafið afplánun á dómum sínum.
Þetta eru ekki einu málin sem mennirnir hafa verið ákærðir í. Hreiðar Már, Magnús og Sigurður eru einnig ákærðir í CLN-málinu svokallaða en þar er þeim gefið að sök að hafa misnotað stöðu sína sem stjórnendur bankans í lánveitingum til nokkurra félaga sem voru í eigu viðskiptavina bankans. Lánin voru svo notuð til að kaupa skuldatryggingar á Kaupþing banka, eða svokölluð Credit Linked Notes, með það að markmiði að lækka álagið og freista þess að opna fyrir fjárveitingar til bankans á markaði.
Þriðja málið sem er fyrir dómstólum, og beinist að Kaupþingsstjórnendum, er Marple-málið svonefnda, en Hreiðar Már og Magnús eru ákærðir í því ásamt Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans, og Skúla Þorvaldssyni, fjárfesti og fyrrverandi stórs hluthafa Kaupþings. Ákært er fyrir fjárdrátt, þegar færðir voru átta milljarðar króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple, sem var í eigu Skúla Þorvaldssonar, án þess að heimild væri fyrir því. Búist er við því að aðalmeðferð þess máls fari fram í haust.