Stefnt er að því að nýtt hvalaskoðunarfyrirtæki taki til starfa á Húsavík á næstu dögum. Fyrirtækið, sem enn hefur ekki hlotið nafn, á nú í samningaviðræðum við félagið Iceland Ocean Tours um kaup á tveimur svokölluðum RIB harðskelja slöngubátum, sem félagið nýtti til siglinga um Breiðafjörðinn með ferðamenn þar til fyrir skemmstu. Bátarnir taka tólf farþega í sæti og geta siglt á 40 sjómílna hraða.
Á Húsavík eru fyrir þrjú hvalaskoðunarfyrirtæki; Norðursigling, Gentle Giants og Salka, en þúsundir ferðamanna leggja leið sína til Húsavíkur ár hvert til að berja hvali augum og straumurinn vex ár frá ári.
Eigendur nýja hvalaskoðunarfyrirtækisins á Húsavík eru Sigurður Veigar Bjarnason, stofnandi og fyrrum eigandi Iceland Refund sem nú heitir Tax Free Worldwide, og Gunnlaugur Karl Hreinsson, framkvæmdastjóri og eigandi fiskvinnslunnar GPG Seafood á Húsavík.
„Við sjáum bara gott tækifæri í því að bæta við þann flota sem fyrir er á Húsavík í dag, bæði hvað varðar þá viðbót að fá þessa RIBS báta á svæðið, sem færa ferðamennina enn nær skepnunni heldur en ella og eru líka skemmtilegir ef ekki er hvalur í flóanum því þá er hægt að gera ýmislegt annað eins og að skoða Lundey og þarna í kring. Við erum með þessu að reyna að styrkja Húsavík sem helsta hvalaskoðunarstað í heimi,“ segir Sigurður Veigar í samtali við Kjarnann.
„Það er gríðarleg aukning þarna í komum ferðamanna. Þarna eru að sækja um það bil hundrað þúsund ferðamenn á ári í hvalaskoðun, og færri komast að en vilja þegar góðir dagar eru. Auðvitað er rólegt þar á milli, en það er nóg pláss í flóanum og þetta verður bara góð viðbót fyrir Húsvíkinga að fá fleiri báta þarna inn til að styrkja svæðið enn frekar.“
Aðspurður segir Sigurður Veigar fyrirtækið stefna á að hefja hvalaskoðunarferðir með ferðamenn á Skjálfandaflóa strax í byrjun júní, gangi samningaviðræður um kaup á bátunum eftir.