Tæplega 40 prósent Íslendinga á aldrinum 20 til 29 ára búa enn heima hjá foreldrum sínum. Í Danmörku er hlutfallið um tíu prósent en í sumum öðrum Evrópulöndum mun hærra. Á Ítalíu, Spáni og Póllandi er það til að mynda á bilinu 60 til 80 prósent. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands sem Morgunblaðið greinir frá.
Þar er haft eftir Kolbeini Stefánssyni, sérfræðingi í lífskjararannsóknum hjá Hagstofu Íslands, að það hafi verið stöðugur stígandi í hlutfalli þeirra Íslendinga á þrítugsaldri sem búa enn í foreldrahúsum. Um langtímaþróun virðist vera að ræða. Tilgáta Kolbeins er sú að þróunin tengist aukinni aðsókn í háskólanám. Það sé erfiðara fyrir fólk í námi að flytja að heiman en fólk sem er komið út á vinnumarkaðinn.
Einnig gæti ekki lengur verið jafn fýsilegt að flytja að heiman nú en áður, meðal annars vegna þess að leiguverð sé of hátt. Kolbeinn telur að ástæða þess að hlutfall fólks á þrítugsaldri sem býr enn heima hjá foreldum er mjög hátt hjá sumum Evrópulöndum geti skýrst að hluta af menningarmun. Sums staðar sé hefð fyrir því að fólk búi lengur í foreldrahúsum. Sömuleiðis geti öðruvísi húsnæðisstefna eða meira framboð af námsmannahúsnæði skýrt lægra hlutfall í öðrum löndum.
Leiguverð og húsnæðisverð hafa hækkað mikið
Alls voru 48.273 Íslendingar á aldrinum 20 til 29 ára í upphafi þessa árs. Samkvæmt því búa tæplega 19 þúsund þeirra enn í foreldrahúsum. Ljóst er að leiguverð hefur hækkað mjög hratt undanfarin ár. Í apríl síðastliðnum kostaði til að mynda um 139 þúsund krónur á mánuði að leigja 60 fermetra tveggja herbergja íbúð í Reykjavík, samkvæmt upplýsingum úr leigugagnagrunni Þjóðskrár. Í byrjun árs 2011 kostaði um 101 þúsund krónur að leigja sömu íbúð. Á meðal þess sem talið er að hafi keyrt upp leiguverð er mikið eftirspurn ferðamanna eftir gistingu, en fjöldi þeirra hefur margfaldast á örfáum árum og voru þeir um ein milljón alls í fyrra.
Húsnæðisverð hefur sömuleiðis hækkað mikið. Þannig hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu til að mynda hækkað um 36,5 prósent frá janúar 2011 til sama mánaðar 2015. Greinendur spá auk þess allt að 25 prósent hækkun til viðbótar út árið 2017.
Það er því ekki fyrirsjáanlegt að aðgengi fólks á þrítugsaldri að húsnæðismarkaðnum sé að fara að aukast verulega á allra næstu árum.