Allir forsætisráðherrar lýðveldissögunnar hafa verið sæmdir fálkaorðu, nema fjórir. Þeir eru Hermann Jónasson, Benedikt Gröndal, Steingrímur Hermannson og Jóhanna Sigurðardóttir, sem hafnaði því að fá stórkross þegar hún sat sem forsætisráðherra á síðasta kjörtímabili.
Greint var frá því í morgun að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefði verið sæmdur stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu þann 13. desember síðastliðinn. Ekki hefur verið greint frá veitingunni annarsstaðar en á undirsíðu nefndar sem veitir fálkaorðuna á heimasíðu embættis forseta Íslands.
Sex manns sitja í orðunefnd fálkaorðunnar. Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, er formaður nefndarinnar.
Fjórir hafa ekki fengið
Orðustig Hinnar íslensku fálkaorðu eru fimm talsins. Fyrsta stig orðunnar er riddarakrossinn og eru flestir orðuþegar sæmdir honum. Annað stig er stórriddarakross, þriðja stig stórriddarakross með stjörnu og fjórða stig er stórkross. Æðsta stig fálkaorðunnar er keðja ásamt stórkrossstjörnu en hana bera einungis þjóðhöfðingjar.
Flestir íslenskir forsætisráðherrar hafa verið sæmdir stórkrossi, sem er æðsta stig hennar sem aðrir en þjóðhöfðingjar geta borið. Eftir leit í gagnagrunni heimasíðu Forseta Íslands komst Kjarninn að því að einungis fjórir forsætisráðherrar hafa ekki fengið fálkaorðu. Þeir eru feðgarnir Hermann Jónasson (forsætisráðherra frá 1956-1958), Benedikt Gröndal (forsætisráðherra frá október 1979 til febrúar 1980), Steingrímur Hermannsson (forsætisráðherra 1983-1987 og 1988-1991) og Jóhanna Sigurðardóttir (forsætisráðherra frá 2009-2013).
Jóhanna var tilnefnd til orðuveitingar en hún hafnaði því að taka við henni.