Meirihluti atvinnuveganefndar afgreiddi breytingartillögu um rammaáætlun úr nefndinni á fundi sínum í morgun. Með breytingartillögunni er lagt til að fjórir virkjanakostir til viðbótar við Hvammsvirkjun verði færðir úr biðflokki áætlunarinnar í nýtingarflokk. Umhverfisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu í haust um að Hvammsvirkjun yrði færð úr biðflokki í nýtingarflokk.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar vöktu máls á þessari afgreiðslu í upphafi þingfundar nú eftir hádegi og gagnrýndu vinnuna mjög. Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG sagði alla vinnu meirihlutans í málinu vera til skammar. „Öll fagleg ferli og vinnubrögð eru þverbrotin, farið er gegn anda og inntaki laganna um rammaáætlun,“ sagði hann.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu meirihlutann fara gegn lögum um rammaáætlun með afgreiðslu sinni á málinu, ekki síst vegna þess að einn virkjanakosturinn, Hagavatnsvirkjun, hefur ekki verið fullkannaður af verkefnisstjórn um rammaáætlun. Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG sagðist telja breytingartillöguna óþingtæka og að ef málið ætti að ná fram að ganga þyrfti stjórnin að leggja fram breytingartillögu um lög um rammaáætlun. Undir þetta tóku bæði Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sagði í samtali við RÚV í hádeginu að hann gerði ráð fyrir ágreiningi við minnihlutann á þinginu vegna málsins. „Það hafa kannski alltaf verið ákveðin átök um það að fara í þessar framkvæmdir en við teljum mjög brýnt, og það sýnir sig auðvitað í stöðu mála sem er alvarleg í raforkuframleiðslu okkar, að það sé höggið á þennan hnút og menn geti látið þessi hjól snúast að nýju.“ Hann sagði jafnframt að verið væri að fylgja málsmeðferð sem gert sé ráð fyrir í lögum. Alþingismenn hafi fulla heimild til þess samkvæmt lögum að leggja fram breytingartillögur um mál.