Það vakti athygli á dögunum þegar breska lögreglan hafði loks hendur í hári skartgriparæningja sem létu greipar sópa í skartgripahverfinu Hatton Gardens í Lundúnum um síðustu páska. Ránið var þaulskipulagt, og tilþrifamikið og minnti helst á Oceans Eleven kvikmyndina, en ræningjarnir höfðu á brott með sér skartgripi og önnur verðmæti fyrir hátt í tíu milljónir sterlingspunda, eða sem nemur röskum tveimur milljörðum króna miðað við gengi íslensku krónunnar í dag.
Handtaka ræningjanna vakti vissulega athygli, en það sem lyfti ekki síður brúnunum á almenningi þegar tilkynnt var um að skartgripaþjófarnir væru komnir bakvið lás og slá, var þegar greint var frá aldri þeirra. Kenningar höfðu verið uppi um að liðugur fimleikakappi hafi verið í ræningjahópnum sem hafi svo smeygt sér inn í rammgerða öryggishvelfinguna, og þá voru aðrir sem héldu því fram að ránið hefði verið skipulagt af frægum glæpamanni á fertugsaldi, betur þekktur sem „Konungur demantanna.“
Þegar breska lögreglan handtók níu menn grunaða um ódæðið kom það mörgum á óvart hversu rosknir þjófarnir voru. Yngstur hinna grunuðu var 42 ára, og aðrir töluvert eldri. Þann 21. maí síðastliðinn kvaðst einn sakborninganna, sem er 74 ára, eiga erfitt með að skilja spurningar réttarvarðar fyrir dómi, þar sem heyrn hans væri farin að versna. Þá haltrar einn hinna meintu þjófa, en hann er hart nær sextugur.
„Gamlingjarnir“ boruðu sig í gegnum þykkan steinvegg til að komast í góssið. Mynd: EPA
Glæpamenn að verða eldri
Ungir karlmenn eru enn í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem fremja glæpi, en hins vegar fer glæpatíðni á meðal þeirra sem eldri eru ört vaxandi í Bretlandi, annars staðar í Evrópu og á meðal þjóða í Asíu. Fréttavefurinn Bloomberg greinir frá þessari athyglisverðu staðreynd.
Samkvæmt nýlegum tölum frá yfirvöldum í Suður-Kóreu jukust glæpir á meðal fólks eldra en 65 ára um 12,2 prósent á árunum 2011 til 2013. Þá fjölgaði ofbeldisglæpum í aldursflokknum um hvorki meira né minna en 40 prósent á tímabilinu. Til samanburðar má geta þess að öldruðum fjölgaði um 9,6 próesnt á tímabilinu sem var til skoðunar.
Í Japan tvöfaldaðist fjöldi glæpa sem framinn var af fólki eldra en 65 ára, á árunum 2003 til 2013. Athygli vekur að aldraðir hafa tekið fram úr unglingum í búðarhnupli í Japan. Í hollenskri rannsókn frá árinu 2010, má sjá mikla og hraða aukningu í handtökum og fangelsunum aldraðra, og í Lundúnum hefur fjöldi 65 ára og eldri sem hefur verið handtekinn aukist um tíu prósent á árunum 2009 til 2014.
Aldraðir virkari en áður
„Eldra fólk í þróaðri löndum er í dag meðvitaðra, minna undirgefið og meira upptekið af félagslegum og efnahagslegum þörfum sínum en áður var,“ þetta segir Bas van Alphen, belgískur sálfræðiprófessor sem hefur rannsakað glæpahneigð á meðal aldraðra. Hann segir að öldruðum hætti nú til að grípa til gripdeilda til að standa jafnfætis efnaðri jafningjum sínum, og þá fremji margir þeirra glæpi vegna eingangrunar. „Einn af mínum skjólstæðingum stal sælgæti til að takast á við einmanaleikann,“ hefur Bloomberg eftir van Alphen.
Þá er aukin fátækt í elsta aldurshópnum líka talin hafa sitt að segja varðandi aukna glæpatíðni á meðal aldraðra. Það er minnsta kosti tilfellið í Suður-Kóreu þar sem 45 prósent fólks eldra en 65 ára lifir undir fátæktarmörkum. Áætlað er að meira en 20 prósent íbúa Suður-Kóreu verði eldri en 65 ára árið 2026.
Opa-gengið, eða afa-gengið, sem samanstóð af þremur þýskum körlum á sjötugs- og áttræðisaldi og voru dæmdir árið 2005 fyrir að ræna meira en einni milljón evra af tólf bönkum, bar fyrir dómi að ránin hefðu verið skipulögð til að bæta ofan á ellilífeyri þremenninganna. Einn þeirra, Wilfried Ackermann, sagði að hann hefði notað sinn hlut ránfengsins til að kaupa sér lítið sveitabýli til að búa á, því hann óttaðist að vera settur á elliheimili.