Nýskráningum einkahlutafélaga síðustu tólf mánuði, frá júlí 2014 til júní 2015, hefur fjölgað um ellefu prósent samanborið við tólf mánuðina á undan. Alls voru 2.173 félög skráð á þessu tímabili. Mest fjölgun var í flokknum byggingastarfsemi og mannvirkjagerð en nýskráningum slíkra fyrirtækja fjölgaði um 48 prósent.. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar um gjaldþrot og nýskráningar fyrirtækja.
Á sama tímabili, það er frá júlí 2014 til júní 2015, fækkaði gjaldþrotum einkahlutafélaga um tólf prósent samanborið við mánuðina tólf á undan. Alls voru 744 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu. Þeim hefur mest fækkað í flokknum Framleiðsla, eða um 24 prósent á síðustu tólf mánuðum.
Línuritið sýnir fjölda nýskráðra einkahlutafélaga og fjölda gjaldþrota í hverjum mánuði frá júlí 2013 til júní 2015.
Á síðustu tólf mánuðum, fram til loka júní, hafa 270 fyrirtæki verið nýskráð í starfsemi bygginga- og mannvirkjagerð. Það er 48 prósent aukning frá mánuðunum tólf á undan. Á þessu tímabili voru 138 fyrirtæki stofnuð utan um rekstur gististaða og veitingahúsa.