44,6 prósent Íslendinga eru mjög eða frekar andvígir því aðevra verði tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi en 37,8 prósent eru mjög eða frekar hlynnt því. 17,5 prósent segjast hvorki vera andvígir né hlynntir upptöku evru. Af þeim sem taka afstöðu segjast 54 prósent vera á móti upptöku evru en 46 prósent fylgjandi. Þetta er niðurstaða könnunar sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið og það greinir frá í dag.
Mikill munur er á afstöðu Íslendinga til upptöku evru eftir því hvaða flokk viðkomandi kýs. Þannig voru einungis 15 prósent Sjálfstæðismanna og 18 prósent Framsóknarmanna hlynntir upptöku evru. Stuðningsmenn Samfylkingar (81 prósent) og Bjartrar framtíðar (80 prósent) eru hins vegar mest fylgjandi upptöku hennar sem gjaldmiðils á Íslandi. Um 43 prósent þeirra sem kjósa Vinstri græna eru fylgjandi upptöku evru og 53 prósent stuðningsmanna Pírata, þess flokks sem mælist með langmest fylgi í skoðanakönnunum.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins (um 75 prósent) og Framsóknarflokksins (71 prósent) er andvígastir upptöku evru en einungis þrjú prósent stuðningsmanna Samfylkingar og tíu prósent stuðningsmanna Bjartrar framtíðar eru á móti. Þá segjast 27 prósent þeirra sem ætla að kjósa Pírata vera andvígir upptöku evru og 42 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna.
Konur eru andsnúnari upptöku evru en karlar, samkvæmt könnuninni. Um 54 prósent þeirra vilja ekki taka hana upp sem mynt en 36 prósent karla eru á móti því.
Könnun Viðskiptablaðsins var framkvæmd af Gallup á tímabilinu 23. september til 5. október síðastliðins. Í úrtakinu voru 1.423 manns og fjöldi svarenda í könnuninni var 859. Þátttökuhlutfallið var því 60,4 prósent. Þar af voru 795 sem tóku afstöðu. Spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi?