Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur segist vera búin að ljúka alls 73 prósentum þeirra aðgerða sem hún ætlaði sér að ráðast í á kjörtímabilinu, eða 137 af þeim 189 málum sem til stóð að ráðast í.
Fjörutíu og sjö mál eru sögð komin vel á veg, í yfirliti sem birt er yfir stöðu aðgerða sem flokkarnir þrír sem mynduðu ríkisstjórn eftir kosningarnar árið 2017 urðu ásáttir um að hrinda í framkvæmd.
Á sérstakri yfirlitssíðu um framkvæmd stjórnarsáttmálans er aðgerðunum í stjórnarsáttmálanum skipt í þrjá flokka eftir stöðu þeirra; hafið, komið vel á veg og lokið.
Huglægt mat
Tekið er fram að þetta mat á stöðu aðgerða sé byggt á huglægum þáttum en ekki hlutlægum. Þetta er því eins konar sjálfsmat stjórnvalda á eigin verkum á kjörtímabilinu og þeim fyrirheitum sem sett voru í stjórnarsáttmálanum.
Ef eitthvað formlegt ferli er komið af stað, til dæmis búið að setja á fót nefnd, þá telst verkefnið hafið. Það er svo sagt komið vel á vel þegar það hefur verið mótað að mestu leyti og niðurstaða í augsýn.
Þegar verkefnum er sagt lokið er bæði átt við um hafi verið að ræða einskiptisverkefni sem kláruð voru á kjörtímabilin og „viðvarandi verkefni til framtíðar sem unnið var með góðum árangri að á kjörtímabilinu í samræmi við stefnu ráðherra.“
Flest mál undir hatti umhverfisráðuneytisins
Alls voru málin 189 talsins og 137 þeirra lokið samkvæmt skilgreiningum stjórnarráðsins, eins og áður segir.
Þegar litið er til þess undir hvaða ráðuneyti flest verkefni heyra sést að verkefnin í stjórnarsáttmálanum voru flest í umhverfisráðuneytinu, eða alls 30 talsins. Þar eru einnig flest verkefnin enn ókláruð, en tólf aðgerðir eru sagðar komnar vel á veg og ein hafin.
Á meðal verkefna sem sögð eru vel á veg komin er til dæmis stofnun miðhálendisþjóðgarðs, en ekki reyndist samstaða á meðal ríkisstjórnarflokkanna um frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra um málið, sem lagt var fram á síðasta þingvetri.
Næstflest mál í stjórnarsáttmálanum voru undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, 28 talsins. Af þeim er fimm verkefnum ólokið, en þau þó öll sögð vel á veg komin.
Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu voru 27 mál sem féllu undir stjórnarsáttmálann og er 23 þeirra lokið samkvæmt skilgreiningum stjórnvalda. Uppbygging nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu í Laugardal er eitt af þeim málum sem sögð eru komin vel á veg í menntamálaráðuneytinu.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið og félagsmálaráðuneytið voru síðan hvort um sig með 25 mál á sinni könnu. Í félagsmálaráðuneytinu er tólf málum enn ólokið en í fjármálaráðuneytinu eru málin fimm, samkvæmt samantekt stjórnvalda.
Heilbrigðisráðuneytið var svo með 14 mál á lista sem ráðast átti í og segir á vef stjórnvalda að níu þeirra sé lokið, á meðan að fimm séu komin vel á veg.
Í forsætisráðuneytinu voru 13 mál sem átti að hrinda í framkvæmd og ellefu þeirra hafa klárast, samkvæmt mati stjórnvalda. Eitt er sagt komið vel á veg, en annað, stjórnarskrárbreytingar, er einungis sagt hafið. Í umfjöllun um það mál segir að frumvarp Katrínar Jakobsdóttur til breytinga hafi ekki orðið útrætt í þinginu.
Færri mál voru á hendi annarra ráðuneyta. Öllum ellefu málunum skráð voru á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið er lokið, samkvæmt mati stjórnvalda, en einungis fimm af þeim níu málum sem voru á hendi dómsmálaráðuneytisins. Þau fjögur sem eftir standa eru þó sögð komin vel á veg.
Fæst mál voru á ábyrgð utanríkisráðuneytisins, eða sjö talsins. Af þeim er búið að ljúka fimm, samkvæmt mati stjórnvalda.