Sjónvarpsfréttastöðin Fox News nýtur mest trausts í Bandaríkjunum. Þetta er niðurstaða könnunar sem Quinnipiac háskólinn birti í gær og vefurinn Politico greinir frá.
Alls sögðu 29 prósent aðspurðra að þeir treystu Fox News best. Í öðru sæti var CNN með 22 prósent, CBS News var í þriðja sæti með tíu prósent, ABC News í því fjórða með átta prósent og MSNBC í fimmta sæti með sjö prósent.
Um 20 prósent aðspurðra sögðust treysta fréttaflutningi Fox News mjög vel og 35 prósent sögðust treysta honum nokkuð vel.
Repúblíkanar elska Fox, Demókratar þola ekki stöðina
Það kemur kannski fáum á óvart er Fox News er mun vinsælli hjá Repúblíkönum en Demókrötum í Bandaríkjunum. Alls sögðust 58 prósent Repúblíkana treysta Fox News best. Fæstir í þeirra röðum treysta MSNBC, eða einungis tvö prósent.
Demókratar eru hrifnastir af CNN. Alls treysta 32 prósent þeirra þeirri sjónvarpsstöð best. Þeir treysta hins vegar Fox News minnst allra, en einungis þrjú prósent Demókrata bera mest traust til þerirar sjónvarpsstöðvar.
Könnunin var framkvæmd daganna 26. febrúar til 2. Mars. Alls var haft samband við 1.286 kjósendur um öll Bandaríkin og skekkjumörk voru 2,7 prósent.